Lítil þúfa

Síðustu daga hef ég varið um 6 klst á læknabiðstofum. Á fimmtudagskvöldið steinleið yfir mig inni á læknavakt eftir gróteskar lýsingar á mögulegum afleiðingum þess að að meðhöndla sár í heimahúsum og tilvísun til handaskurðlæknis ef sýklalyf skiluðu ekki sýnilegum árangri á 30 klst. Í dag brosti annar læknir í kampinn og sagðist ekki hafa neina trú á þeim mikla tauga- og sinaskaða sem hinn læknirinn hafði spáð mér og fullkomlega óraunhæft að vænta árangurs á 30 klst þegar bólgan væri svona mikil.

Tvennt voru þeir þó sammála um; það sem sýnist vera lítil skeina getur verið hættulegur skurður og nei, það á alls ekki að stinga dauðhreinsuðum títuprjóni í þennan sjálfstæða ógeðskarakter sem er að vaxa út úr fokkjúputtanum á mér, þetta er vökvi en ekki graftrarkýli.

Núna áðan sprakk ógeðið án minnar aðstoðar. Gröftur vall út og bólgan hefur hjaðnað til muna.

Niðurstöður dagsins:
a) hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir sýnast vera -sbr skurðurinn,
b) hlutirnir eru venjulega eins og þeir sýnast vera -sbr kýlið.

Best er að deila með því að afrita slóðina