Sálfræði harmarunkarans

Sumt fólk þarf ekki að fróa sér. Það upplifir alla þá sælu sem það þarf með því að velta sér upp úr misraunverulegum tragedíum annarra. Þetta er oftast almennilegasta fólk, sem ekki er annað að sjá en vilji öllum vel og það er ekkert endilega slúðurberar þótt þetta tvennt geti vissulega farið saman.

Harmarunkarinn þrífst á hugarangri. Hann ber með sér tilhneigingu til að draga fram allt sem hugsanlega gæti verið erfitt, neikvætt og niðurrífandi ef ekki í fortíð, þá í framtíð. Hann þekkist á krónískum mæðusvip og siglir undir merkjum umhyggju og vinsemdar í garð allra, einkum þeirra sem hann á engin náin tengsl við. Hann hefur allar samræður á því að spyrja um heilsufar þeirra ættingja sem vænta má að hafi átt við einhvern lasleika að stríða, fikrar sig yfir í umræður um drykkjuskap fjarskyldra ættingja, þaðan í vandræðabörn innan fjölskyldunnar, fjármálaklúður eða atvinnudrama vina og kunningja eða hvað eina annað sem hægt er að finna á einhvern tragískan flöt til að runka dramsýki sinni. Aldrei vottar fyrir illkvittni í armæðu hans, en áhyggjur hans af málum sem koma honum ekkert við, eru bæði verulegar og varnalegar og samúð hans er átakanleg.

Harmarunkarinn tekur heilshugar undir umræður um þá sem njóta velgengni en þó einatt með þeirri áherslu að velgengin gæti verið á undanhaldi. Hjarta hans titrar gleði yfir börnum sem standa sig vel í skóla eða tómstundastarfi og hæst rís gleði hans þegar tilefni gefst til að fylgja þeirri umræðu eftir með „ja það er nú eitthvað annað en hún frænka hans, mikið lifandisósköp…“ á innsoginu. Ef maður lýsir aðdáun sinni á hvunndagshetju sem hefur náð af sér 40 kg, leggur harmarunkarinn mikið upp úr því hvað viðkomandi var orðinn skelfilega illa á sig kominn áður en hann tók sig á. Þegar hann spyr hvernig gangi hjá manni sjálfum, setur hann spurninguna fram með angistarfullum munnviprum og vottar fyrir kvíða í röddinni, rétt eins og hann búist allt eins við að fá enga staðfestingu á því að líf manns sé í rúst og þurfa jafnvel að fjárfesta í fokdýru kynlífsleikfangi til að fá það sem hann þarf.

Eftir ógnarlanga skýrslu um hagi fólks sem ég þekki varla nema í sjón, og úrkula vonar um að ég vissi nokkuð bitastætt um hina ýmsustu harmleiki innan fjölskyldunnar, gerði harmarunkarinn tilraun til að beina tregasköndli sínum að mér.

-Þetta er alveg æðisleg búð hjá þér, var ekki mikil vinna að koma þessu í gang?
-Jújú það var mjög skemmtilegt en þetta er auðvitað mikið vinnuálag.
-Já, ég sé að þú ert þreytuleg.
-Nú? Ég sem er bara ekkert þreytt núna.
-Og gengur þetta alveg?
-Jájá.
-Er ekki voða lítil velta hjá svona smáfyrirtæki?
-Ég bara hef engan samaburð.
-En þú lifir af þessu?
-Ég stend í skilum.
-Og ertu svo bara orðin ein með þetta allt saman, er það ekki erfitt?
-Nei, það er nú bara mesta furða. Ég fékk ungan strák sem kemur og aðstoðar mig eftir skóla svo þetta breytti ekki miklu.
-Strák, nú bara ungling þá?
-Já, 18 ára.
-Jájájá. Er ekki voða dýrt að vera með fólk á launum?
-Jújú en það hefur nú ekki hvarflað að mér að bjóða einhverjum að vinna launalaust.
-Og hefurðu einhver verkefni fyrir svona ungling?

Á einhverju augnabliki fer maður að velta fyrir sér hversu ómeðvitaðar þessar runktilraunir eru í raun. Ég stillti röddina á freðýsu.

-Ég finn nú oftast eitthvað handa honum að dunda við en svo er drengurinn náttúrulega blautur tengdamömmudraumur svo þegar er lítið að gera þá bara læt ég hann strippa fyrir kerlingarnar.

Lágt taugaveiklunarfliss.
-Jahérna, ég er nú bara farin að halda að ég hafi sagt eitthvað óviðeigandi.
-Neinei góða mín, sagði ég illyrmislega, það er ég sem segi iðulega eitthvað óviðeigandi.

Bestaskinnið borgaði kaffið sitt og fór.
Líklega hefur hún farið í Adam og Evu.
Mikið ósköp eiga mennirnir bágt.

Best er að deila með því að afrita slóðina