Endurskoðun

Ég komst að niðurstöðu og það var góð niðurstaða og skynsamleg og rétt líka. Rómantísk ást er ónauðsynleg og oftar en ekki til óþurftar.

Ég kastaði ástargaldri og pantaði þægilegan mann, ekki alkóhólista, sem yrði góður við mig og kynni á borvél. Hann gaf sig fram og ég íhugaði alvarlega að slá til. Þar sem ég sýndi honum engan kynferðislegan áhuga (það virðist vera pottþétt leið til að gera karlmenn ástfangna)varð hann bálskotinn í mér og því meiri almennilegheit sem hann sýndi mér, því hrifnari varð ég af Elíasi, sem kæmi ekki undir nokkrum kringumstæðum til greina sem lífsförunautur.

Ég kastaði sama galdri aftur og pantaði þægilegan mann, ekki alkóhólista, sem yrði góður við mig og kynni á borvél OG sem mig langaði brjálæðislega mikið til að sofa hjá. Í miðri athöfn bankaði Elías upp á.

Ég reyndi einu sinni enn. Sleppti allri greddu úr galdrinum. Ég er engin pempía. Hef ekki talið mig of merkilega til að skeina gamalmenni eða þrífa brennivínsælur á skemmtistaðaklósettum og fyrir annars fullkominn mann, gæti bara vel látið mig hafa það að vera honum til skemmtunar, svona einusinni í viku, kannski tvisvar í mesta lagi. Annar fullkominn maður gaf sig fram. Gula ljósið náði ekki niður í klofið á mér (kenning bráðskemmtilegrar spákonu um ástæður einlífis míns) og þótt ég væri tilbúin til að bíta á jaxlinn, greip mig einhver heiðarleikavæmni og mér fannst ég vera að svindla á honum ef ég gerði mér upp áhuga.

Ég stend við það sem ég segi. Rómantísk ást er ekki nauðsynleg. Samt sem áður; the winner takes it all og því ætti ég að sættast á eitthvað minna. Það eina sem ég þarf að gera er að finna leið til að klína skelfingarangist tilveru minnar á kóngulær eða kjarnorkusprengjur eða einhvern andskotann annan en ástarsorgina. Verst að ég veit ekki hvernig í fjandanum það er gert.

Best er að deila með því að afrita slóðina