…og allt verður fullkomið

Ég er þjónn þinn og lærlingur, sagði Búðarsveinninn. Það fannst mér fallegt.

Elsku drengurinn heldur að hann sé kominn í draumastarfið. Ég lofaði honum skítalaunum og gnægð hundleiðinlegra verkefna en hann ljómaði bara eins og hann hefði aldrei heyrt um neitt skemmtilegra en að fara í Sorpu, flokka steina eftir stærð, glíma við hálfónýtan prentara og telja geðfatlað fólk ofan af því að eyða örorkubótunum sínum í hluti sem gætu haft neikvæð áhrif á bata þess.

Nú þarf ég bara að ráða spákonu, markaðsstjóra, símadömu, skotveiðimann og bakara og þar með þarf ég ekki að gera neitt nema skrifa sonnettur og lakka neglurnar á mér. Svo læt ég byggja mér kastala í Vesturbænum svo ég geti setið við efsta turngluggann og horft á veldi mitt rísa.

Best er að deila með því að afrita slóðina