Búðarsveinn fundinn

Búðarsveinninn byrjar í dag. Ég veit að mörgum kann að þykja undarlegt að ráða ungan pilt þegar ég á tvo slíka heima. Málið er að ég elska drengina mína mjög mikið og þótt þeir hjálpi auðvitað til, vil ég alls ekki gera vinnuna og heimilislífið að einu og sama fyrirbærinu. Ég veit heldur ekki hvernig það færi með Andlit byltingarinnar að þurfa að velja á milli þess að taka laugardag í að þjóna annaðhvort byltingunni eða Nornabúðarveldinu. Það væri svona svipað og að láta barn velja á milli foreldra. Auk þess mun það ekki hafa fjölskylduharmleik í för með sér þótt búðarsveinninn bregðist á ögurstundu eða ef kemur upp ágreiningur varðandi kaup og kjör. Fyrir nú utan það að þeir hafa svosem nóg annað að gera, báðir.

Afi Bjarni heldur að ég muni „degradera“ búðina með því að hafa búðarsvein mér við hlið en ég hef ekki áhyggjur af því. Þegar valið stendur um;
einstæðar mæður,
öryrkja,
krónískan atvinnuleysingja, nýútskrifaðan af Vogi,
fólk með yfirnáttúrulega hæfileika,
fólk með ýmsar hugmyndir um það hvernig ég geti bætt reksturinn
eða barnlausan ungling með eldlegan áhuga, greind yfir meðallagi, góða heilsu, aðstæður til kvöld- og helgarvinnu, þokkafulla framkomu, hóflegar launakröfur og útgeislun á við Tsjernóbíl (nema bara mun heilsusamlegri geisla), þá er ég allavega ekki í vandræðum með að velja.

Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti einstæðum mæðrum, en börn eiga að hafa foreldra sína heima á laugardögum og ég nenni ekki að kveljast af samviskubiti gagnvart börnum sem ég ber enga ábyrgð á.

Ég hef heldur ekkert á móti öryrkjum, en orðið merkir „maður með skerta starfsgetu“ og það er bara ekki það sem mig vantar.

Yfirnáttúra er sjálfsagt söluvænlegri en ónáttúran í mér en það þarf hvorki andlega krafta, né listfengi til að þvo gluggana og fara í bankann. Ég þarf heldur ekki ráðgjafa í andlegum og veraldlegum efnum, enda skil ég ekki í því að þeir sem hafa svona gott vit á verslunarrekstri skuli ekki vera í farsælum rekstri sjálfir.

Góðar hugmyndir vantar mig ekki. Hef nóg af þeim sjálf. Góð hugmynd er einskis virði fyrr en búið er að ýta henni í framkvæmd. Það sem mig vantar er traustur þjónn og ég held að ég sé búin að finna hann.

Best er að deila með því að afrita slóðina