Gömul saga

Helstu einkenni munnmælasögunnar:

-hún sprettur af raunverulegum atvikum
-atvikin eru ýkt og lítt skyldum atburðum ruglað saman
-nöfn, staðir og tímasetningar breytast

Að lokum er sagan komin svo langt frá sannleikanum að söguhetjan telur sig geta sagt af sannfæringu að það sé „ekki fótur fyrir henni“. Sem er yfirleitt rangt og sú staðreynd hleypir bara nýju lífi í söguna.

Í dag heyrði ég óþægilega munnmælasögu af sjálfri mér. Um nokkuð sem á að hafa gerst fyrir 10 árum eða meira. Ég hef svosem heyrt hana í ýmsum afbrigðum fyrr og gerði á sínum tíma tilraun til að leiðrétta hana en hef greinilega ekki náð árangri. Það er reyndar fótur fyrir þeirri sögu eins og flestum sögum sem verða svo langlífar, en lítið á þessi nýjasta uppfærsla skylt við það sem raunverulega gerðist.

Ég hef aldrei verið smeyk við að ögra viðteknum hugmyndum um það hvað er viðeigandi og hvað ekki. Ég geri það sem mér sýnist svo framarlega sem ég hef ekki ástæðu til að ætla að það muni skaða einhvern. Þesslags viðhorf býður upp á kjaftagang og ég tek því sem óumflýjanlegum fylgifisk praktísks skoðana- og tjáningarfrelsis. Þar af leiðandi kæri ég mig kollótta um það hvað fólk sem ég ber engar taugar til kann að halda um mig eða segja.

Ég finn hinsvegar aðkenningu að vonbrigðum þegar fólk sem ég taldi vini mína tekur þátt í söguburði án þess að spyrja mig út í söguna. Fóturinn er vissulega til staðar og ég hef aldrei afneitað honum. Það er hinsvegar flugufótur en ekki fílsfótur.

Það þarf auðvitað að krydda flugufætur með hæfilegum slatta af illgirni til að þeir bragðist vel. Og hafa þá marga svo gestirnir verði saddir. Berist fram með fullkomlega skiljanlegri öfundsýki (let´s face it stelpur, ég er einfaldlega flottari en nokkur ykkar og klárari líka) dulbúinni sem móröslkum standard. Neytið meðan á nefinu stendur og verði ykkur að góðu.

Best er að deila með því að afrita slóðina