Nornabúðin er orðin einsárs.
Á þessu fyrsta starfsári hefur margt gerst sem skiptir máli. Við erum búnar að gera allskyns hluti sem iðnaðarmenn eru lengur að, stækka búðina, búa til fullt af allskonar og uppgötva fullt. Það er samt þrennt mikilvægt sem okkur hefur ekki tekist á þessum 365 dögum:
-Við erum ekki ennþá búnar að fá nafnspjöldin sem Prentmundur lofaði okkur fyrir mörgum mánuðum og þóttist m.a.s. einu sinni vera búinn að prenta.
-Við erum ekki búnar að fá stimpil með lógóinu okkar. Heiða pantaði reyndar stimpil en fékk hann afgreiddan með lógói fyrirtækis við Laugaveg sem hvorug okkar hefur nein tengsl við. Við vildum hann ekki.
-Við erum ekki búnar að fá afsláttarkort hjá Bílastæðasjóði. Reyndar erum við búnar að borga fyrir símastæði en það virkar ekki og þeir sem sitja fyrir svörum hjá Bílastæðasjóði, virðast allir vera náskyldir þessum tveimur starfsmönnum sem voru á launaskrá hjá Þjónustuveri símans á síðasta ári, eða allavega með sama syndromið.
Þetta verða sumsé baráttumál næsta árs.
Ég er allavega staðráðin í því að næsta árið skal ég hvorki flísaleggja né brjóta veggi. Helmingur mannkynsins er hannaður til þess að sinna slíkum verkefnum og ég fylli EKKI þann helming.
Ég gaf búðinni minni heftara í afmælisgjöf. Hún hefur nefnilega ekkert með hring að gera. Ég elska búðina mína.