Kokhreysti hlýtur að merkja að hafa hraust kok. Kokhraustur maður þolir væntanlega sýkla og eiturgufur án þess að fá hálsbólgu.
Ég er ekki kokhraust.
Rannsóknir sýna að 25-30% Íslendinga reykja. Það er minnihlutinn. Hvernig stendur á því að allir skemmtistaðir eru ætlaðir minnihlutanum? Ég hélt lengi að það væri af því að tóbaksfíklar drykkju meira en eðlilegt fólk en það hefur líklega verið rangt til getið. Á síðustu árum hafa margir minna vina og kunningja hætt að reykja og ég get ekki betur séð en að eyðslufíkn þeirra og áfengissýki sé alveg jafn virk og áður.
Mig langar að hafa aðgang að huggulegum stað, með lifandi tónlist, þar sem maður þarf ekki að öskra upp í eyrað á næsta manni til að halda uppi samræðum. Þar væri hægt að fá osta og einfalda smárétti og fólki umsvifalaust hent út ef það væri of drukkið til að geta stungið upp í sig brauðbita án þess að klína álegginu í húsgögnin. Þar væru líka vistarverur þar sem mætti spila póker (sem á að sjálfsögðu að vera löglegt alveg eins og spilakassarnir), skák og scrabble. Þar mætti ekki reykja. Hvílík bylting. Það væri ennþá góð lykt af manni þegar maður færi heim og þjóðin tæki aftur upp á því að fjölga sér fyrir fertugt.
Ef ég hefði minnsta áhuga á næturvinnu og helling af peningum myndi ég stofna svona klúbb. Ég trúi ekki að þessi 70-75% þjóðarinnar sem ekki reykja gætu ekki afrekað það að gúlla í sig nógu miklu brennivíni til að halda einum þokkalegum stað á floti.