Annar þjófur

Síðustu nótt braust einhver inn í búðina mína án þess að valda neinum skaða svo vitað sé. Í nótt hafði einhver fyrir því að rífa númeraplötu af bílnum mínum og leggja hana snyrtilega ofan á toppinn.

Ef bíllinn hefði staðið við búðina eða á planinu fyrir framan blokkina þar sem ég bý, hefði ég velt því fyrir mér hvort sama fólk hefði verið að verki. Ég hef hinsvegar ekki trú á því að ég eigi svo ötula umsátursmenn að þeir hafi komist að því að ég yrði niðri í miðbæ, á bílnum, í nótt. Ég er ekki beinlínis þekkt fyrir djammfíkn og hef ekki rætt áform mín um að verða mér úti um lungnakrabba og skítalykt í kvöld, við neinn nema Önnu. Tel því ósennilegt að nokkur tengsl séu á milli þessara atburða, nema þá helst táknræn. Þau eru hinsvegar staðfesting þess að ég hef dottið niður á sérdeilis góðan þjófagaldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina