Rannsókn á hjátrú tengdri barnsburði

Félagi minn sendi mér tengil á könnun sem vinkona hans er að gera í tengslum við rannsókn á hjátrú varðandi meðgöngu og fæðingu. Efnið er afskaplega áhugavert og ég hvet alla sem sjá þetta til að leggja sitt af mörkum með því að svara spurningalistanum.

Annars fór ég að velta því fyrir mér hvernig svörin yrðu ef maður tæki spurningum eins og væri verið að spyrja um raunveruleg viðhorf manns en ekki um hindurvitni sem maður hefur orðið vitni að eða heyrt um.

Ég prófaði til gamans að svara fáeinum spurningum út frá því sjónarmiði.

Spurt er:
Getur nærvera ákveðinna einstaklinga haft áhrif á líkurnar á því hvort getnaður verður?

Vísindalegt svar:
Nærvera við ákveðna einstaklinga getur skipt máli og þá einkum nærvera við karlkyns einstaklinga sem vekja losta konunnar. Hafi karlinn í frammi lostalæti aukast líkurnar á getnaði verulega.

Spurt er:
Eru til einhver ráð til að komast hjá getnaði?

Vísindalegt svar:
Vilji konan komast hjá getnaði er ráðlegt að eta mikinn hvítlauk og dvelja nokkra stund á hæsnabúi eða öðrum illa þefjandi stað áður en farið er á mannamót þar eð slíkur fnykur er til þess fallinn að halda karlmönnum í hæfilegri fjarlægð. Þetta ráð dugar þó lítt gegn körlum sem neytt hafa áfengra drykkja. Gegn einbeittri samræðisfýsn karla í þvílíku ástandi er aðeins eitt ráð, hvetja manninn til að innbyrða of mikið áfengi til að honum rísi hold.

Spurt er:
Getur návist við börn eða óléttar konur haft áhrif á það hvort verður af getnaði?

Vísindalegt svar:
Nærvera við börn og ólétta konur hefur áreiðanlega sálræn áhrif á vilja fólks til að fjölga mannkyninu, hvort þau áhrif eru jákvæð eða neikvæð fer sjálfsagt eftir því hversu viðráðanlegir krakkaormar vina og ættingja eru og hversu vel eða illa óléttan fer í þær konur sem maður umgengst.

Það sem konu ber að forðast vilji hún komast hjá því að verða ólétt eru fyrst og fremst karlmenn, einkum og sér í lagi ungir og fallegir menn sem segjast vera ástfangnir af þeim. Ef slíkur maður bætir því við að hann langi að eignast barn er konu sem ekki vill verða ólétt ráðlegast að þykjast vera samkynhneigður karlhatari og pilla sig heim til sín hið snarasta.

Best er að deila með því að afrita slóðina