Sjónarhorn

Torfi áttar sig ekki alveg á því hvers vegna ég treysti sálfræðingi betur en honum sjálfum til þess að meta tilfinningalegt ástand mitt og möguleika á því að auka lífsgæði mín með viðtalsmeðferð.

Það Torfi minn er vegna þess að ég hef þessa einkennilegu trú á því að margra ára háskólanám og til viðbótar 20 ára reynsla af því að fást við fólk með sambærilega reynslu, geri fólk hæft til þess að meta líkurnar á að markmiðið náist.

Setjum sem svo að þú eigir bíl sem á það til að stoppa á miðri Kringlumýrarbrautinni á háannatíma. Þú veist ekki hvers vegna en þetta er allavega mjög óþægilegt og hefur kostað þig margan göngutúrinn. Þú veist ýmislegt um það sem ekki er að bílnum. Þú veist að hann er ekki bensínlaus og þú veist að það þarf ekki að smyrja hann. Þú ert margbúinn að lesa handbókina en ert engu nær. Þú skrifar um vandamálið á vefsíðu og Eva svarar. Eva segir þér að það sé örugglega ekkert að bílnum sem þú getir ekki lagað sjálfur og að bifvélavirkjar séu bara ómerkilegir peningaplokkarar. Eva býðst m.a.s. til að koma og skipta um bremsuklossa fyrir þig. Hún hefur að vísu aldrei gert það en hún sá einu sinni pabba sinn gera það, fyrir 5 árum. Þar með væri Eva búin að leysa öll þín vandamál.

En setjum nú sem svo að þú sért orðinn svo pirraður á þessu ástandi að í stað þess að hleypa Evu í bremsuklossana ákveðir þú fara með bílinn á verkstæði. Þú spyrð bifvélavirkjann hvort sé hægt að laga bílinn og hann segir já. Án þess einu sinni að skoða hann almennilega. Kannski segir hann að þetta geti verið ýmislegt, kammski rafkerfið eða stífla í bensíntanknum eða eitthvað annað en það sé engin ástæða til að draga bílinn á haugana.

Hvað gerir Torfi þá? Segir Torfi við sjálfan sig að þótt þessi bifvélavirki hafi margra ára reynslu af því að gera við blöndunga og rafkerfi, öxulhosur, dindilhosur eða hvað þetta nú allt heitir, þá sé miklu skynsamlegra að fara að ráðum Evu því hún hafi þó allavega heyrt lýsinguna á biluninni oftar en einu sinni og hafi einlægan vilja til að skipta um bremsuklossa í bílnum?

Getur verið að Torfi sé hreinlega að spila sig víðáttuvitlausan í von um að geta haldið uppi bloggsamræðum? Eða er maðurinn bara haldinn því algenga heilkenni að eiga í erfiðleikum með að sjá hlutina út frá sjónarhóli annarra?