Í dag er ég fögur

Í dag er ég fögur. Vér fegurðardísir höfum nú brúkað rafknúnu keppahristuna mína tvo daga í röð og haldið hvor annarri félagsskap á meðan á meðferðinni stendur. Stefnum á titilinn „stinnasta vinkvennapar landsins á fertugsaldri“ í flokknum undir 160 cm. (Er þá átt við hæð en ekki breidd).

Það er útaf konum eins og okkur Nönnu sem þessi fáránlegu skilyrði eru sett fyrir þátttöku í keppninni „ungfrú Ísland“. Glætan að þessar tvítugu leggjasleggjur ættu séns ef önnur eins hnoss væru í boði. Á hinn bóginn er engar líkur á að við tækjum þátt í slíkri keppni þótt skilyrðin væru „alvöru kynþokki og yfirburða skemmtilegheit“. Höfum bara annað og merkilegra við tímann að gera.

Er loksins búin að melta Spurningabókina hans Pablos Neruda. Mér finnst hann ofmetinn. Játa samt vægt hrifningarkast yfir spurningunni „hvað eru margar randaflugur í einum degi?“. Sú er verulega flott. Mín spurning er hinsvegar „hvað eru margir mörkögglar á einu læri?“ Sú er betri. Ég held að ég hljóti að vera efni í skáld.

Best er að deila með því að afrita slóðina