Bróðir minn Mafían

Bróðir minn Mafían er einkar siðprúður ungur maður. Einhverju sinni vaknaði hann við hliðina á konu sem hann hafði kynnst á öldurhúsi kvöldið áður. Stúlkan vaknaði áður en honum tækist að laumast fram úr, svona líka hamingjusöm og stakk upp á því að þau færu út í bakarí og keyptu rúnstykki. Bróðir minn Mafían pýrði á hana annað augað.
-Ætlastu kannski líka til þess að við borðum rúnstykkin? spurði hann rámum rómi.
-Auðvitað borðum við þau líka, eða ertu kannski ekki svangur?
-Vitanlega er ég svangur Jónína, sagði hann, en við þekkjumst ekki neitt og þótt ég hafi sofið hjá þér er ekki þar með sagt að ég ætli að éta með þér rúnstykki og eignast með þér börn. Ég borða ekki með fólki sem ég þekki ekki neitt, það er bara prinsipp.

Tveimur vikum síðar vaknaði hann í öðru húsi hjá annarri konu. Konan, morgunbjört og fögur nefndi morgunmat ekki einu orði en stakk upp á því að þau dirfu sig í sund.

Bróðir minn Mafían stökk fram úr rúminu og ældi í blómavasa.
-Í alvöru talað, sagði hann seinna við okkur systurnar, hún ætlaðist til þess að ég færi að baða mig með ókunnugu fólki. Hverskonar eiginlega pervasjón er það?

Best er að deila með því að afrita slóðina