Hvítir hrafnar

Farfuglar koma alltaf aftur. Maður veit bara aldrei hvenær. Haffi hringdi í mig. Ekki trúnaðardrukkinn undir miðnætti laugardagskvöldi og bara ekki að meika það að vera einn í nótt, heldur edrú kl. 20.15 á miðvikudegi.

-Er allt í lagi? spurði hann.
-Jájá. Af hverju spyrðu að því?
-Hélt að þú myndir kannski hringja í mig en ég hef ekkert heyrt frá þér.
-Ég hélt hins vegar ekki að þú myndir hringja í mig. Allavega ekki edrú.
-Geturðu hitt mig á morgun, bara eftir hádegi, á kaffihúsi?
-Er eitthvað að?
-Nei. Mig bara langar að hitta þig.
-Veit ekki hvort ég kemst frá. Prófaðu bara að hringja seinni partinn, sagði ég.

Ekki spyrja hvað ég er eiginlega að pæla. Auðvitað átti ég bara að segja nei. Ég hef ekki einu sinni hugsað til hans lengi, ekki fyrr en ég hitti hann í IKEA. Tók upp á því að sakna hans þegar ég var í svo slæmum sárum eftir Húsasmiðinn að ég þorði ekki að leyfa mér að hugsa of mikið um hann. Klíndi þá þráhyggjunni á Haffa í staðinn. En það er liðið hjá, hann er fársjúkur dagdrykkjumaður, við eigum ekkert sameiginlegt og við eigum ekkert órætt. Og ef út í það er farið stendur mér alltaf til boða að skiptast á líkamsvessum við Rikka. Hann hefur ekki einu sinni sett það skilyrði að ég komi fram við hann eins og manneskju svo ég ætti að vera hæstánægð. Hitta Haffa í kaffi um miðjan dag. Til hvers? Þetta er rugl.

Ég valdi símanúmer Rikka en hætti við. Hvað ætti ég svosem að segja við hann? Ég hef saknað þín, eða eitthvað svoleiðis? Ég hef ekki saknað hans rassgat. Líklega er hann ekki nógu slæmt keis til þess en auk þess eigum við ekkert sameiginlegt.

Mér flaug í hug að ég ætti kannski að hringja í manninn sem segist vera ástfanginn af mér. Það vill nefnilega til að við eigum sitthvað sameiginlegt og mér finnst allt í lagi að hitta hann ef hann stingur upp á því. En hugmyndin um að hringja í hann sjálf virðist fráleit. Hann er bara einhvernveginn eins og pabbamatur, t.d. fiskbollur í dós eða heitur rommbúðingur. Eitthvað sem ég borða alveg ef einhver annar er þegar búinn að elda það, fullboðlegur matur, ekkert verri en grjónagrautur sem ég elda oft sjálf og ét, ekkert að honum þanniglagað, bara eitthvað sem myndi aldrei hvarfla að mér að kaupa sjálf.

Það eru nú einusinni örlög mannsins að vera einmana og sennilega bara blekking að maður sé eitthvað minna einmana í félagsskap annarra svo kannski væri bara vesenisminnst að sleppa öllum samskiptum ef maður þekkir engan sem maður á eitthvað sameiginlegt með og getur líka hugsað sér að sofa hjá.

Keikó hringdi og spurði hvort ég vildi taka vakt á Víkingnum um helgina. Það var ágætt. Starfið er að vísu ógeð, launin enn meira ógeð og ég hef andskotans nóg annað að gera. En það verður tilbreyting að hitta einhvern annan en Uppfinningamanninn og Endorfíndrenginn og blekking er góð. Auk þess eru næstum allir þjónarnir sætir og þótt þeir séu ýmist ungir, fráteknir eða fyllibyttur eru engin lög sem banna mér að horfa á þá.

Best er að deila með því að afrita slóðina