-Mamma; er það ekki rétt skilið hjá mér að það verði enginn matur keyptur fyrr en allt sem er til er búið? kallaði sonur minn síðgelgjan fram úr eldhúsinu.
-Jú. Eins og alltaf í janúar. Ég kaupi náttúrulega mjólk og grænmeti en okkur vantar ekkert kjöt eða þurrefni á næstunni.
-Þetta á líka við um drykki er það ekki? spurði hann en það kom mér á óvart að heyra engan kvörtunartón því hann vill helst ekki drekka neitt annað en ávaxtasafa.
-Það getur vel verið að ég kaupi einhvern safa en fáðu þér bara vatn eða mjólk núna, svaraði ég.
-Það er semsagt alveg á hreinu að það á að klára alla mjólk og annað sem er til í ísskápnum áður en þú kaupir eitthvað að drekka? sagði hann og mér fannst eitthvað grunsamlegt við málróminn.
-Darri, ef er til appelsín niðri í geymslu þá máttu fá það, er það það sem þú vilt? sagði ég en muldrið sem hann gaf frá sér sannfærði mig um að eitthvað annað héngi á spýtunni.
Ég fór fram og opnaði kæliskápinn. Þar var, og því var ég búin að gleyma, kippa af bjór sem ég hafði ætlað að innbyrða yfir jólin en ekki komist yfir. Uppi á eldhússskáp var aukinheldur hálf rauðvínsflaska, hálf hvítvínsflaska, óátekin freyðivínsflaska og óátekin Amarula. Ég sagði syni mínum gelgjunni að það stæði ekki til að hann tæki þátt í því að klára áfengisbirgðir heimilisins.