Sjúkt og rangt

Ligg í djöfullegri hálsbólgu, sjálfsvorkunn, veikindakvíða, blankheitakvíða og öðrum aumingjaskap. Sé ekki vott af þessu guðlega réttlæti hennar Spúnkhildar í því að ég veikist. Ég hef alltaf verið góð stelpa og á ekki skilið að veikjast. Þetta er sjúkt og rangt.

Síðast þegar ég veiktist, sumarið 2003 var það einmitt hálsbólga sem þjakaði mig. Fékk streptókokka og svo einhverja aðra sýkingu ofan í þá, gat hvorki kyngt né talað og hafði ekki einu sinni úthald í neitt metnaðarfyllra sjónvarpsefni Footballers’ wives. Ég lá í bælinu og sófanum til skiptis í 2 vikur (það geri ég ekki ef ég er fær um að standa í lappirnar lengur en 10 mínútur í senn) og var óvinnufær viku til viðbótar. Fyrir utan óþægindin af því að vera tekjulaus í 3 vikur leit ég út eins beinagrind í latexgalla eftir þessar vikur og var í rúma 2 mánuði að ná viðunandi holdum og húðlit.

Ef ég verð ekki töluvert skárri á morgun fer ég til læknis og tek frekjukast. Heimta pensilín og parkódín forté (það er gott dóp) og að ég verði lögð inn og kirtlarnir tættir úr mér. Mér var sagt síðast að líklega væri heppilegt að fjarlægja kirtlana en þeir treysu mér ekki í aðgerð þar sem ég var farin að þorna upp og var líka orðin alvarlega vannærð þegar þeir loksins settu mig á lyf sem virkuðu. Síðan hef ég ekki fundið mér tíma til að láta leggja mig inn. Hvenær er svosem heppilegur tími til að láta krukka í sig?

Ég er búin að klippa kreditkortin (ég klippi kreditkort og borga upp yfirdrátt þegar ég sé fram á blankheit) og ætla nú út til að borga símareikninginn, byrgja mig upp af verkjalyfjum, hálsbrjóstsykri og öðrum skyndilausnum og kaupa mjólk og lauk. Fara svo út á vídeóleigu og ná í footballers´ wives á meðan ég hef ennþá heilsu til þess -og peninga.

Þeir sem vilja vorkenna mér mega senda sms eða tölvupóst, eða kommenta hér. Það þýðir ekkert að hringja í mig því ég get ekki einu sinni hvíslað án þess að finna til.

Best er að deila með því að afrita slóðina