Andlegt ástand eða bara drasl?

Ef eitthvað er að marka þá kenningu að umhverfi manns endurspegli sálarástandið þá hlýt ég að vera frekar veik á geðinu núna. Eða allavega þunn, flokkast þynnka ekki annars sem „sálarástand“? Ég á alltaf svo erfitt með að greina sundur anda, sál, geð og líkama. Íbúðin lítur allavega út eins og eftir áramótapartý (þ.e.a.s. hefðbundin áramótapartý en ekki svona huggulegheit eins og við Sigrún höfðum í frammi á nýársnótt). Ég tók reyndar draslið úr bílnum í gær (verð að hringja í gámaþjónustuna í dag til að láta fjarlægja það) og ætti samkvæmt því að vera byrjuð á einhverskonar „andlegri hreinsun“ svo líklega eru það börnin mín sem lentu í andlegu áramótaskralli en ekki ég sjálf. Enda eru það þau sem eiga fötin sem liggja á stofugólfinu og þau sem notuðu glösin og sælgætisumbúðirnar sem liggja í haugum út um allt. Ég þyrfti líklega að hýða þau oftar og lengur í einu.

Ég skrópaði á tónleikum með litla bróður í nótt eina ferðina enn. Fann mér það til afsökunar að ég er með forstigseinkenni hálsbólgu og þar sem hálsbólga lagði bæði bróður minn og Uppfinningamanninn í bælið í marga daga er ekki á það hættandi að ganga inn í reykjarkófið á íslensku öldurhúsi þegar maður þolir það ekki einu sinni fullfrískur. Auk þess á ég að vera mætt í vinnu kl. 10 auk þess sem fatakaupamartröð minni er hreint ekki lokið, svo ég þurfti eiginlega að sofa.

Best er að deila með því að afrita slóðina