Enn eitt leikritið

Frumsýning á Híbýlum vindanna í gær. Fín sýning. Jaðraði á köflum við að vera of artý fyrir minn smekk en slapp til og ég var ánægð með af leikstjórn, reyndar alla listræna stjórnun, hrifin af öllum leikurum, ekki síst börnunum sem stóðu sig mjög vel, sviðsmyndinni, búningunum o.s.frv. Sagan sjálf er dapurleg og sjálfsagt erfitt að segja svona mikla sögu í einu leikverki en handritið er þokkalegt. Sumsé vel þess virði að sjá þetta stykki.

Mér finnst hlén alltaf vandræðaleg þegar ég fer ein í leikhús. Maður er einhvernveginn utanveltu, flettir leikskránni en hefur engan til að deila upplifuninni með. Í gær sá ég myndarlegan mann á mínum aldri sem var líka einn. Sat á milli tveggja para og ráfaði um í hlénu og þóttist vera að skoða veggspjöldin. Ég vatt mér að honum og sagði „mig langar að vera hjá karlmanni í nótt. Einhverjum sem fer stundum í leikhús, hefur lesið eitthvað annað en Rapport og horft á svosem eins og eina bíómynd sem er ekki með ensku tali“.

Nei, auðvitað gerði ég það ekki. Honum hefði líklega þótt það galið. Ég horfði bara á hann þar til hann náði skilaboðunum. Sáumst aftur eftir sýninguna. Hann horfði á mig tvístígandi, eins og hann væri að reyna að manna sig upp í að ávarpa mig en missti annað hvort kjarkinn eða áhugann. Ég hefði kannski átt að láta til skarar skríða sjálf en gerði það ekki. Ég er orðin svo hundleið á karlmönnum sem þora ekki að taka frumkvæðið. Reyndar líka hundleið á því að vera alltaf í einhverju leikriti sjálf án þess að vera á sviði. Stundum er líf mitt á mörkum þess að vera of artý fyrir minn smekk.

Best er að deila með því að afrita slóðina