Einhvernveginn afrekaði ég að jóla heimilið og koma matnum á borðið kl 18:05. Jólaði samt ekki bílinn, verð bara að áramóta hann í staðinn.
Sonur minn Byltingamaðurinn er að komast yfir mesta kommúnismann, á Þorláksmessu viðurkenndi hann m.a.s. að hann hlakkaði til jólanna. Sonur minn gelgja dauðans tók hins vegar að sér hlutverk Trölla sem stal jólunum þetta árið.
Gjafaflóðið hefur yfirleitt jaðrað við geðsýki. Sjálf er ég löngu hætt að gefa börnum vina og vandamanna drasl sem ég hef ekki efni á, sem hverfur svo hvort sem er í pakkaflóðið og nú, þegar synir mínir eru nánast uppkomnir, er fólkið mitt farið að gútera það, svo eitthvað hefur nú dregið úr þessu. Föðurfjölskyldan þeirra er hinsvegar við sama heygarðshornið og jólar eins og vindurinn þótt þau hafi ekki fengið snitti frá okkur í mörg ár. Ég harðneita að vera með samviskubit yfir því, tek ekki þátt í svona vitleysu, vil að jólin séu fjölskyldutími en ekki kvöð. Móðir mín bætti ójólan okkar systranna upp með því að verja ráðherralaunum til jólagjafakaupa. Pysjan fékk t.d. sjónvarp með innbyggðum dvd spilara frá henni. Ég er að hugsa um að biðja hana að gefa honum ferðaklósett í afmælisgjöf svo hann þurfi aldrei að koma út úr herberginu sínu framar.
Ég svaf heilar 9 klst. í nótt og líður eins og Þyrnirós eftir 100 ára blundinn. Var reyndar að hugsa um að liggja í bælinu áfram og lesa bækurnar sem ég fékk í jólagjöf og éta á mig brjóst en mér finnst bara þægilegra að lesa í sófanum. Auk þess tímdi ég ekki að setja andlitsmaska í hvítu og straujuðu damask rúmfötin mín. Ákvað fyrir löngu að taka jóladag í kvenlegt dekur og er nú búin að smyrja á mig öllum kremtegundum sem til eru á heimilinu. Það vill svo heppilega til að það er vel hægt að blogga með maska og naglbandaeyði. Og bryðja laufabrauð með smjöri. (Eins gott að Endorfínstrákurinn sér ekki til mín núna, hann ásakar mig um sjálfvígstilraun í hvert sinn sem hann sér mig borða kleinu eða sjóða saltkjöt.)
Pólína kemur í mat í kvöld. Það er siðferðileg skylda að hafa hangikjöt á jóladag. Held að Pysjan biði þess ekki bætur ef það klikkaði. Ég ætla að elda humar líka af því að Pólína borðar ekki kjöt. Vona bara að hún hafi ekki fengið humar hjá Spengilfríði í gærkvöldi, ég hefði auðvitað átt að kynna mér það áður.
Skrifaði ekki nein jólakort en þeir sem ætla að ásaka mig um ræktarleysi ættu að láta athuga andlegar móttökustöðvar sínar. Ég lagðist nefnilega í innhverfa gong-yai íhugun og sendi öllum hugskeyti og hjúpaði þá hvítu ljósi. Sértaklega Fangóríu því það þurfti hvítt ljós til að vega á móti jólablikkljósunum sem einhver útsendari Satans hjúpaði hana rétt fyrir jól. Vona bara að mótgaldur minn hafi virkað.