Sysifos

-Skil ekki af hverju ég er að þessu. Það hefur komið fyrir að ég grenja af þreytu, sagði samstarfskona mín og hverju á maður að svara? Reyna að segja henni að samningar geri ráð fyrir 40 stunda vinnuviku og pásum, þegar þessir sömu samningar gera ráð fyrir launum sem duga ekki til að framfleyta fjölskyldu. Hef sjálf lent í því að genja af þreytu en það hefur ekki gerst í mörg mörg ár því ég er löngu búin að sætta mig við mín þolmörk.

Ég er orðin svo útkeyrð af þreytu að mig verkjar í vöðva sem ég vissi ekki að ég hefði. Er búin að taka að mér meira en ég ræð við og mig langar svo mikið til þess að það sé einhverjum öðrum en sjálfri mér að kenna. Jæja, þetta fer að skána, ég minnka aðeins við mig eftir helgina og auk þess samdi ég við vinkonu mína um að skipta við mig í kvöld. Losna þ.a.l. við að bóna fram á miðja nótt og ætti að komast í bælið á kristilegum tíma svona einu sinni. Sá fram á að væri ekkert vit í öðru en að taka smá pásu því ég er hreinlega orðin hrædd um að örmagnast en þarf að vera vinnufær um helgina. Helst djammfær á sunnudagskvöldið líka, verð í fríi fram eftir degi á mánudag og búin að tilkynna Manninum sem vill ekki eiga brauðrist með konunni sinni að ég ætli að skríða uppí til hans þegar hann kemur heima af vaktinni á mánudagsmorgun.

Hálf fáránlegt að verða sér úti um bólfélaga en hafa svo aldrei tíma til að hitta hann. Ætlaði til hans á þriðjudagskvöldið en þá var hann kallaður í vinnu. Ég hafði ekki orku til þess að gera neitt af viti svo ég fór á Tímavillta víkinginn og hékk yfir strákunum í eldhúsinu. Er maður ekki orðinn frekar firrtur þegar maður eyðir eina fríkvöldi vikunnar á vinnustaðnum?

Best er að deila með því að afrita slóðina