Viðtalstími fyrir einkamálajálka

Urr.. ég er lasin, ekki óvinnufær með öllu en hrjáð af beinverkjum og með einhvern hitaslæðing. Ég fékk Pólínu til að taka að sér skúringarnar í morgun og er að bögglast við að lesa próförk en gengur ekki rassgat.

Einkamál.is leiðin er hreinlega of seinvirk fyrir minn smekk, auk þess sem tölvudruslan mín er með stæla og lokar vefnum stundum aftur þegar ég reyni að senda skilaboð. Nokkrir sem virðast koma til greina hafa þó haft samband en ég á erfitt með að forgangsraða þeim og hef auk þess lítinn tíma fyrir árangurslaus deit.

Ég er tilbúin til að veita áhugasömum kandidötum í hlutverk bólfélaga og/eða eiginmanns 5-7 mín. viðtal milli kl. 14:30 og 16:00 næsta mánudag á kaffiteríu Perlunnar. Þeir sem eiga séns á að fá að hitta mig í eigin persónu eru þar með

a) þeir sem lesa bloggið mitt reglulega og sjá þ.a.l. þennan texta
b) hafa kjark til að mæta á staðinn
c) þolinmæði til að bíða ef einhver annar verður á undan þeim

Skilyrði til þess að ég vilji hitta viðkomandi aftur er svo að hann virði tímamörk og hangi ekki yfir mér lengur en 7 mín. Ég þoli ekki að þurfa að reka á eftir fólki og mun örugglega ekkert liggja á því ef ég hef áhuga á að hafa viðtalið lengra.