Karma

Og þá er það semsé komið á hreint; ég fæ ekki þessa peninga, allavega ekki nógu snemma. Ekki nógu snemma til að ég geti staðið við þær skuldbindingar sem ég tók á mig í trausti þess að ég fengi þetta greitt. Og fyrst þú getur ekki reddað þessu þegar ég þarf virkilega á því að halda, hverjar eru þá líkurnar á því að þú gerir það síðar? Þú þarft að nota þessa peninga til annars segðirðu. Æ segðu frekar ÆTLA. Því þetta snýst auðvitað val eins og allt annað. Þú ÆTLAR að nota peningana MÍNA í annað, peninga sem ÉG á. Peningana sem ég lánaði þér. Vaxtalaust. Ekki fjármagnstekjupeninga eða happdrættisvinning eða arf, heldur bara venjulega peninga sem ÉG vann fyrir.

Ókei, ekki ætla ég að fara að leika fórnarlamb. Ég tók þessa áhættu sjálfviljug. Ég gat alveg eins reiknað með því að eitthvað klikkaði. Og þegar öllu er á botninn hvolft er það mannins eðli að láta sjálfan sig ganga fyrir, ég gat reiknað með því að það ætti við um þig eins og flesta aðra. Ég gat alveg eins átt von á þessu. Þ.a.l. er við sjálfa mig að sakast. Ekki satt?

Þú heldur vitanlega að ég sé reið. Þessvegna snýstu til varnar, býst til að setja í rifrildisgírinn. Nei veistu, ég er ekkert reið. Sennilega hef ég hljómað reiðilega en það er bara af því að ég er Mía litla og kann bara að sýna gleði og reiði. Það hefur bara alltaf verið þannig, restina skrifa ég.

Nei elskan. Ég er ekki reið. Þótt ég ætti að vera það af því að þetta er bara alls ekkert sanngjarnt. Málið er að ég er löngu búin að komast að þeirri niðurstöðu að lífið sé ekkert sanngjarnt og þessvegna tilgangslaust að vera að ergja sig á því þegar einhver stingur mann í bakið.

Ég er ekki reið. Ég eyði ekki orku í það. Ég gæti æst mig upp í reiði og ég gæti eyðilagt líf þitt. En það er óþarfi. Fólk sem kemur skítlega fram sér yfirleitt um að refsa sér sjálft. Þeir sem hafa farið illa með mig hafa alltaf séð um það sjálfir. Sumir hafa étið á sig óhamingju, aðrir hafa drukkið hana í formi ótæpilegs magns áfengis. Einn giftist konu sem er svo andstyggileg við börnin hans að þau eru nánast hætt að umgangast hann, annar býr með forljótri konu sem á svo andstyggilegan krakka að hann flýr heimilið. Samt getur hann ekki farið frá henni. Hvað skyldir þú nú að gera sjálfum þér til að losna aldrei við sektarkenndina yfir því að hafa féflett mig?

Ég spái því að þú sökkvir þér í skuldafenið, dýpra og dýpra, þar til þú átt þér ekki viðreisnar von. Þú gerir allt öfugt við það sem samkvæmt þinni eigin vitund er skynsamlegt. Þú opnar ekki póstinn þinn. Þú færð þér fleiri kreditkort. Þú kaupir hluti sem þig vantar ekki. Þú kemur þér í aðstæður þar sem þú lendir í óhöppum. Innan þriggja ára verðurðu gjaldþrota. Ég óska þér þess ekki. Ég bara held í fullri alvöru að það verði þín leið til að fyrirgefa sjálfum þér. Fólk hefur nefnilega svo sterka þörf fyrir að gera yfirbót, jafnvel þótt það gagnist þeim sem það hefur brotið á ekki nokkurn skapaðan hlut. Samt tekst þér eki að fyrirgefa sjálfum þér, því þú veist að ég græði ekkert á þínum vandræðum. Ég óska þér þess ekki. Ég óska þér einskis ills en ég vildi hins vegar bæði mín vegna og þín vegna að þú færir frekar þá leið að gera þetta upp við mig. Þín vegna af því að mér þykir svo afskaplega vænt um þig. Mín vegna af því að ég er búin að kaupa þessa íbúð, búin að undirrita kaupsamning og gefa loforð um greiðslu á tilteknum tíma.

Hvað sem þú gerir í málinu stend ég við mitt. Það eru ekki örlög mín að verða blönk. Það er vegna þess að ég stend alltaf við mitt, hvernig sem ég fer að því. Ég er bara einfaldlega þannig týpa, ég stend við mitt. En í augnablikinu hef ég enga hugmynd um það hvernig ég fer að því og það veldur mér kvíða, eða öllu heldur sálarangist. Og ég bara veit ekki hvað maður gerir við sálarangist, annað en að skrifa hana í kaf. Í augnablikinu heldur drengurinn minn að ég hljóti að vera reið.

Best er að deila með því að afrita slóðina