Engin loforð

Ég spurði Hótelstjórann hvort væri komið á hreint hvaða dag ég gæti flutt inn í íbúðina sem hann ætlaði að leigja mér en það reyndist þá bara vera einhver misskilningur að hann ætlaði að leigja mér hana.

„Ég var ekkert búinn að lofa því 100% sagði hann“ og það er alveg satt. Ég hefði auðvitað átt að biðja hann að segja 10 fingur upp til guðs en gerði það ekki, tek því fulla ábyrgð á þessu rugli sjálf. Auðvitað á maður ekki að ganga út frá að hlutirnir séu á hreinu nema allt sé skriflegt eða allavega búið að staðfesta afhendingardag og leigufjárhæð mað handabandi. Man það næst.

Ég er sumsé húsnæðislaus. Bý með 2 unglinga á stofugólfinu hjá föður mínum og þegar búin að segja honum að það sé bara dagaspursmál hvenær ég geti flutt. Ég flyt þaðan út fyrir mánaðamót. Þótt ég þurfi að fara út á land til þess. Ég er bara ekki þessi týpa sem sest upp á foreldra sína á fertugsaldri.