Fumbl

Búin að prófa eldhúsið en veit ekki alveg hversu vel ég mun falla í hópinn. Ferðaþjónusta bænda var í mat og ég ætlaði að grípa tækifærið til að vera skemmtileg.

-Skil ekkert í þeim að vera ekki löngu búin að reisa styttu af Axlar-Birni fyrir framan skrifstofuna. Þegar allt kemur til alls var hann brautryðjandi á faginu.
-Jahá? segja vínveiturnar og mér verður ljóst að brandarinn hefur ekki hitt í mark. Geri illt verra með því að reyna að hnykkja á pönsinu.
-Já sko hann var sá fyrsti á Íslandi sem hafði tekjur af bændagistingu, segi ég og heyri sjálf hvað ég hljóma aulalega.
-Já er það virkilega? segir önnur vínveitan kurteislega og um leið átta ég mig á því að hún hefur ekki grænan grun um það hver Axlar-Björn var eða fyrir hvað hann er þekktur. Heldur þ.a.l. sennilega að ég sé að reyna að slá um mig með söguþekkingu minni eða einhverju í þá veruna.

Fjandakornið. Hversvegna gekk ég út frá því sem vísu að fólk sem hefur allt önnur áhugasvið, allt annan reynsluheim, allt aðra þekkingu en ég, átti sig á brandara sem fyrir hvern þann sem þekkir sögu Axlar Bjarnar ætti að vera augljós. Líklega ætti ég að hætta við að gerast skemmtikraftur og stofna bara ræstingafyrirtæki í staðinn.

Kann svo vel við litla Egyptastrákinn í eldhúsinu. Hann er glaðlyndur og röskur en auk þess kemur hann hlaupandi um leið og ég tek upp þungan hlut með orðunum „ég skal núna“. Ég hef endurheimt þá trú mína að enn séu til karlmenn á Íslandi.

Best er að deila með því að afrita slóðina