Urr

Ekki veit ég hver fann það út að veitingahúsaþrif ættu að vera kvenmannsverk en það var allavega ekki kona. Og þó, konur eru konum verstar svo kannski var það kona. En allavega ekki kona sem vegur 43 kg með naglalakki.

Fyrsta daginn minn í starfi hafði hótelstjórinn á orði að ég væri kannski of lítil og veikburða til að skipta á rúmunum. Næsta dag hafði álit hans á líkamlegu atgervi mínu aukist svo mikið að hann setti mig umsvifalaust í það að bera vatnsfötur milli hæða. Og eins og sönn valkyrja sagði ég já og amen.

Ég sótti um í eldhúsinu. Sá fyrir mér atgang og félagsskap. Galsafengna kokka, kynþokkafulla þjóna, orðheppnar kerlingar, lausar við pempíuhátt. Og hér er ég skúrandi fyrir hádegi og eini félagsskapurinn sem ég hef er illfyglið sem daðrar við mig einn daginn og bítur mig þann næsta. Ojæja, ég hitti þó fólk þótt ég hafi ekki beinlínis starfsfélaga.

Það hefur víst einhverntíma verið verra.