Það er ekki nema vika síðan ég sagði Húsasmiðnum að ég ætlaði aldrei að vera ein aftur. Ef slitnaði upp úr þessu milli okkar fyndi ég mér annan. Þá vissi ég auðvitað ekki að hann ætlaði að slíta þessu og samtalið þá nótt, yfirlýsingar hans um það hve miklu máli ég skipti hann og hversu mikils hann mæti vináttu mína sannfærðu mig um að afskiptaleysi hans síðustu daga væru aðeins merki um óhóflegt álag.
-Það er allavega eitt sem er alveg á hreinu, ég hef alltaf komið hreint fram við þig, sagði hann. Þremur sólarhringum síðar sleit hann sambúðinni með þeim orðum að hann væri samt ekki að hafna mér. Af hverju líður mér eins og ég sé klikkuð?
-Það þarf ekki að tákna að þú hafir gert eitthvað vitlaust. Það er vel hægt að kasta teningi sex sinnum í röð og fá alltaf sömu töluna, sagði Keli.
Það er líklega rétt. Samt efast ég um að ég leggi í makaleit á næstunni. Ég meinti það alveg þegar ég sagði að ég ætlaði aldrei aftur að vera ein, en eftir á að hyggja hef ég líklega aldrei verið neitt annað.
Tekjur mínar síðustu mánuði duga mér ekki til að fá greiðlsumat fyrir íbúð sem hentar mér. Sem þýðir að ég verð að fara á leigumarkaðinn. Sem þýðir að ég verð að flytja allavega tvisvar sinnum enn.
Það er hægt að lifa með tilfinningalegri höfnun, rétt eins og krabbameini og þar sem ég hef fína þjálfun í því, veit ég að ég kemst í gegnum þetta. Og þótt fjármálin séu gjörsamlega í hassi í augnablikinu, eru það ekki örlög mín að vera blönk. Fyrr eða síðar koma stór verkefni, eins og alltaf, eða önnur vinna með ásættanlegum tekjum. Ég venst því hinsvegar ekki að flytja og í þetta sinn er ég hreint ekki viss um að ég afberi það.