Heiðurgerð

Til eru ýmis lýsingarorð sem hafa mætti um litina og litasamsetninguna á íbúðinni sem ég bý í en „smekklegt“ er ekki eitt þeirra. Nú þegar Hollendingurinn fljúgandi er fluttur inn með allt sitt antik og fínerí er engu líkara en að frystihússgrænu veggirnir í eldhúsinu æpi á ljósa málningu. Ástarhreiðrið er málað í nærbuxnableikum lit og skakkur veggfóðursborði með afarljótum myndum af telpum í balletkjólum, hangir c.a. 15 -20 cm frá lofti. Ég hef hvergi annarsstaðar séð þessa staðsetningu á veggfóðursborða og hún kemur vægast sagt illa út.

Vörður laganna fékk grænbláa hryllinginn með Liverpool borðanum (ég tók Liverpool gluggatjöldin niður til að draga úr áhrifunum) og Byltingamaðurinn sefur í malbiksgráa herberginu. Þess má geta að hann er stórhrifinn af litnum sem fer afar vel við fatahrúgurnar á gólfinu og bækurnar sem hann dreifir yfir þennan 2ja fermetra borðhrylling sem hann kom með heim úr smíðatíma þegar hinir krakkarnir komu með kringlótt smáborð með renndum fæti.

Pysjan (sem er nú að vaxa upp úr því að geta kallast Pysja) er í eina svefnherberginu í húsinu sem er í þolanlegum lit sem þó getur ekki talist fagur; kaldasta afbrigði af gulum lit, svo köldum að hann er næstum blár.

Það er fyrst nú sem ég upplifi þetta hús sem heimili mitt og mig dauðlangar að mála. Ég tími hins vegar ekki að leggja í kostnað og vinnu við það þar sem ég veit ekki hvort ég verð hér aðeins 3 mánuði í viðbót eða mun lengur. Ég er með krónískt ofnæmi fyrir flutningum og þótt ég hafi búið í bjartari íbúð, vildi ég helst festa kaup á þessari, þótt ekki væri til annars en að sleppa við frekari flurtninga. Tvíbýli er ekki slæmur kostur og maðurinn sem heitir ekki Guðmundur og heldur ekki Ásmundur heldur Stefán er prýðilegur nágranni og það er nokkurs virði. Það er líka svo fallegt útsýni yfir Elliðaárdalinn og svo rólegt hér að þetta er nánast eins og að vera úti í sveit.

Maðurinn sem heitir alltsvo Guðmundur (ólíkt fyrrum tengdaföður hans sem heitir hvorki Guðmundur né Ásmundur) segist vilja fá 25 millur fyrir íbúðina en það er nú varla raunhæft. Kannski gerum við tilboð þegar ég er búin að selja húsið mitt í smáþorpi Dauðans. Nema ég flytji það í bæinn og komi því fyrir í Grasagarðinum. Það er ósköp falleg lóð og starfsmenn Reykjavíkurborgar sjá um að hirða hana. Ætli þeir yrðu ekki bara glaðir ef þeir kæmu í vinnuna einn morguninn og sæju að það væri 140-150 fermetrum minni flötur sem þyrfti að slá?

Best er að deila með því að afrita slóðina