Ó það er svo þroskandi að eiga fyrrverandi maka

Ég efast um að nokkur manneskja hafi gert mér jafn mikið gott og elskulegur barnsfaðir minn. Í hvert sinn sem ég er orðin svo örvæntingarfull af karlmannsleysi að ég að því komin að kasta mér í fangið á næsta rugludalli sem birtist, kemur eitthvað upp á sem minnir mig svo rækilega á það hvers vegna ég skildi við hann að allir sambúðarórar mínir hjaðna eins og froða á flóaðri mjólk.

Enginn maður á meiri heiður skilinn fyrir framlag sitt til þroskaferlis þolinmæði minnar, enginn hefur gefið mér fleiri tækifæri til að finna fáránlegustu rökvillur í ógnarlöngum predikunum, enginn hefur sannfært mig betur um siðræna og greindarfarslega yfirburði mína og enginn hefur staðfest betur þá trú mína að betra sé autt rúm en illa skipað. Á dögum eins og þessum vanhagar mig um nánast allt sem hægt er að hugsa sér -nema karlmann.

Best er að deila með því að afrita slóðina