Farfuglar koma alltaf aftur

Farfuglinn hringdi í mig í gærkvöld og bauð mér í heimsókn. Honum var dálítið niðrí fyrir en það er þó hvorki fyllirí né kvennafar sem er að plaga hann núna. Eitthvað er að angra hann en hann gerir sér líklega ekki grein fyrir því sjálfur. Sýndi verulega góðan leik í hlutverki manns sem er í þokkalegu jafnvægi og veit nokkurnveginn hvað hann vill.

Hann segist vera að ganga í gegnum hamskipti og vera kominn að þeirri niðurstöðu að sig langi meira að verða listamaður en bankastjóri þegar hann er orðinn stór. Ég hef þekkt hann Í 18 ár og þekki hann bara þó nokkuð vel. Ég hef aldrei skilið hvernig í ósköpunum það hvarflaði nokkurn tíma að honum að verða eitthvað annað en listamaður. Líklega bara væntingar umhverfisins og ótti við fátækt.

Hann er ánægður þótt einhverjir konfliktar kraumi undir yfirborðinu. Sýndi mér málverk, lét mig renna yfir heilt smásagnasafn, las fyrir mig ljóðabálk og söng sig í gegnum heilt tónleikaprógramm.
-Veit að ég er frekar egócentrískur í augnablikinu en ef þú vilt tala skal ég hlusta með hluttekningu, sagði hann. Ég fíla einmitt þetta í fari hans. Hann talar hreint út, feisar sjálfan sig án þess að biðjast afsökunar á því hver hann er.

Samband mitt við farfuglinn er kannski það öruggasta sem ég hef upplifað. Við höfum alltaf verið einlæg hvort gagnvart öðru. Við höfum skipst á reynslusögum, hugrenningum og skoðunum án þess að stimpla eða dæma, alltaf verið til staðar hvort fyrir annað (eða allavega ég) þótt við höfum stundum ekki hist árum saman. Auk þess erum við jafningjar hvað varðar greind, menntun, efnahag, vannýtta hæfileika og skilning á mannlegu eðli. Útlitslega séð erum við líka í svipuðum klassa og jú, það skiptir víst máli. Hann hefur metnað fram yfir mig, kann betur að æsa upp eldmóðinn í sjálfum sér og er búinn að koma sér í virðulega stöðu. Ég hef hins vegar betri stjórn á lífi mínu á flestum öðrum sviðum, harðari skráp og meira úthald í erfiðleikum.

Ég hélt á tímabili að við ættum eftir að vera saman í alvöru. Við vorum trúnaðarvinir öll þessi ár. Við sváfum saman þegar hann var ekki á föstu. Maður hefði haldið að slíkt samband væri ágætur grunnur fyrir eitthvað meira. Hann átti alltaf kærustur af og til en þegar hann lenti í tilvistarkreppu hringdi hann samt í mig en ekki þær. Ég spurði hann einu sinni hvers vegna við hefðum aldrei orðið par. Hann gat ekki svarað því. Sagði bara að það væri örugglega ekki af því að nokkuð væri athugavert við mig og að ég hefði svosem aldrei farið fram á það. Það er rétt, ég fór ekki fram á það. Langaði það ekki nógu mikið til að fara bónarleið að honum. Býst við að hann hafi bara aldrei orðið ástfanginn af mér. Karlmenn eru yfirleitt svo miklir tilfinningavinglar inni við beinið. Halda að það skipti í alvöru einhverju máli að vera ástfanginn.

Stundum fannst mér eins og hann liti á mig sem tilfinningalega ruslatunnu. Seinna skildi ég að það var rangur misskilningur. Mér verður alltaf hugsað til hans þegar ég heyri ákveðnar línur úr Fílahirðinum frá Súrín;

Mér fannst stundum eins og þú jafnvel elskaðir mig svolítið
-allavega gafstu það sem þú áttir.

Við sofum ekki lengur saman en það er bara af því að hann á konu og hvorugt okkar er í tilvistarkreppu. Samt er vinátta okkar söm. Dýpri ef eitthvað er. Og ég held ég sé loksins búin að átta mig á því hvers vegna ég skipti hann máli.

Ég held að ég sé konan sem fyllir æðar hans af endorfíni.

Best er að deila með því að afrita slóðina