Ljóð handa hvunndagshetjum

… og skuggar hnipra sig saman
þegar morgunskíman
vomir ógnandi yfir

matarleifum gærdagsins
á eldhússborðinu
dagatali fyrra árs
sem enn hangir á veggnum
og bunka af ógreiddum reikningum

barn í götóttum sokk
togar sængina niður á gólf
og skjannahvítur morgunn
heltekur
vansvefta mjaðmir

að 5 börnum fæddum
hreyfir líkaminn mótmælum;
fyrir undna tusku
eymsli í öxlum
og stingur í mjóbak og mjöðm
við hvert moppudrag yfir gólfið

bjúgur dagsins
fyrir heimilisreksti
brjósklos næturinnar
fyrir uppsöfnuðum vanda
dugar ekki til

og bankinn
kinkar kolli samúðarfullur
og skrifar læknisvottorð;
sólarrhing
með 3 vinnustundum til viðbótar

og skuggarnir anda léttar
og breiða úr sér
yfir rúminu.

Heilkennið

Eitthvert undarlegt heilkenni hefur verið áberandi hjá mínu heimilisfólki undanfarið. Það lýsir sér í tómum sjampóflöskum sem stillt er upp á baðkarsbrúninni í stað þess að rata í ruslið, tómum krukkum og smjörvaöskjum sem eru settar í kæliskápinn, en ekki í ruslið eða enduvinnslukassann) og tómum morgunkornspökkum og öðrum umbúðum sem er troðið í yfirfullan þurrefnaskápinn en ekki endurvinnslukassann.

Ég veit ekki hvort þetta ætti frekar að kallast umbúðaheilkenni eða ruslasöfnunarheilkenni en samkvæmt minni reynslu er það ólæknanlegt. Ég hef að vísu ekki reynt þá aðferð að æpa mjög hátt og skella hurðum. Ég bara nenni því ekki. Það eru hvort sem er ekki nema 7-8 ár þar til þeir verða báðir fluttir að heiman.

Félagsskítur

Þegar sunnudagskrossgátan og Boston Leagal eru hápunktar vikunnar, getur það þá ekki verið vísbending um að félagslíf manns sé frekar bágborið?

Ljóð handa hlaupagarpi

Fallinn, rétt einu sinni
kylliflatur
fram fyrir skakklappir tímans

sem alltaf virðist á hraðferð
og ég vona þín vegna
að hann gangi ekki
á pinnahælum.

Líttu svo upp og sjáðu hann aka burt
á nýja sportbílnum sínum.
Já, stattu á fætur
Náðu honum nú enn einu sinni.
Hlauptu með tunguna lafandi,
glefsaðu í dekkin og gjammaðu,
þá stoppar hann sjálfsagt og býður þér far.

Víst er hann beinn þessi vegur og breiður
leiðin greið
malbikið mjúkt undir sóla
og óvíst er um hvert krókóttir skógarstígar leiða.

En skyldirðu þreytast á hlaupunum
skal ég vera þér úlfur.
Leiða þig á villistíg
þar sem skógarber vaxa á skurðbakka
og lim eplatrés slútir yfir veginn.

Ljóð handa Mjallhvíti

Einmitt þegar þú heldur
að þú hafir fest hönd á mér
mun ég renna þér úr greipum
í nýjum ham.

Eftir skil ég grænsilfraða minningu
milli handa þinna,
mittislinda,
hluta af sjálfum mér.

Láttu ekki vondu drottninguna
hnýta að þér lindann mín ljúfa,
horfðu á eftir mér
þegar ég hverf í nýja hamnum mínum
djúpt inn í laufþykknið,
þar mun ég leita þér epla.

Sett í skúffuna í október 2000

Með auga mannfræðingsins

Sit á kaffihúsi, vopnuð lappanum, sunnudagskrossgátunni og þröngum bol.
Þarf að vinna í dag og býst ekki við að það yrði vel séð að ég tæki borvélina og lóðboltann með á kaffihús en hér er svosem ekki feitan gölt að flá hvort sem er. Einn sem virðist geðþekkur og lítur út fyrir að vera hér af sömu ástæðu og ég (vanta félagsskap við hæfi) en hinsvegar ekki í sama tilgangi. Ég er hér til að verða mér úti um maka en hann er sennilega í ástarsorg ef marka má fas og svipbrigði. Halda áfram að lesa