Ljóð handa hlaupagarpi

Fallinn, rétt einu sinni
kylliflatur
fram fyrir skakklappir tímans

sem alltaf virðist á hraðferð
og ég vona þín vegna
að hann gangi ekki
á pinnahælum.

Líttu svo upp og sjáðu hann aka burt
á nýja sportbílnum sínum.
Já, stattu á fætur
Náðu honum nú enn einu sinni.
Hlauptu með tunguna lafandi,
glefsaðu í dekkin og gjammaðu,
þá stoppar hann sjálfsagt og býður þér far.

Víst er hann beinn þessi vegur og breiður
leiðin greið
malbikið mjúkt undir sóla
og óvíst er um hvert krókóttir skógarstígar leiða.

En skyldirðu þreytast á hlaupunum
skal ég vera þér úlfur.
Leiða þig á villistíg
þar sem skógarber vaxa á skurðbakka
og lim eplatrés slútir yfir veginn.