Lopapeysa á Næsta bar

Um daginn hitti ég sætan sölumann sem er á lausu og kemur samt ekki fyrir eins og hringli í hausnum á honum. Hann stoppaði lengur en hann þurfti. Mun lengur.

Ég hef svona verið að velta fyrir mér möguleikanum á að hafa samband við hann en ætlaði að ræða við kunningjakonu mína, sem vill svo til að þekkir hann, og fá umsögn, áður en ég færi að eyða dýrmætum tíma mínum í að dindilhosast utan í lambakjöti sem er svo kannski alki eða eitthvað þaðan af verra. Halda áfram að lesa

Andlit á glugga

Ég sofnaði aftur í morgun, aldrei þessu vant. Líklega hefur farið meiri orka í Ian Anderson en ég gerði mér grein fyrir. Ég vaknaði aftur um kl 8 með andlit á glugga, í bókstaflegri merkingu. Ég dró ekkert fyrir gluggann í gærköld og þarna blasti andlit við mér. Það er verið að gera við blokkina að utan og hinir skeleggu verkamenn sem dunduðu sér jafnan korterslangt á svölunum hjá mér síðasta sumar, eru komnir í gírinn aftur.

Ég fór í sturtu og þegar ég kom aftur var andlitið horfið. Vinnupallurinn er ennþá upp við gluggann svo hugsanlega koma þeir aftur í dag. Þeir eru líklega í 8-9 pásunni núna.

Ó mæ god

Lykta ég eins og gamalmenni? spyrð þú.
Þetta getur maður kallað að spyrja ranga konu rangrar spurningar. Setjum sem svo að sú væri raunin. Finnst þér líklegt að ég segði þér það?

Reyndar hef ég ekkert velt líkamslykt þinni fyrir mér enda hef ég aldrei orðið fyrir áhrifum af henni. Mér finnst ólíklegt að þú lyktir eins og gamalmenni. Mér finnst sennilegast, svona fyrst ég er komin út í þessar pælingar, að þú lyktir eins og maður á þínum aldri á að gera. Ég hinsvegar veit það ekki, því ég hef aldrei þefað af þér. Halda áfram að lesa

Í tifi nýrrar klukku

Ég vaknaði í morgun, við hljóm nýrrar klukku
sem ekki hefur áður slegið í húsi mínu.
Fagnandi leit ég í dimmbláa skífuna og spurði:
„Hvenær klukka mín,
hvenær mun tif þitt hljóðna
og þögnin ríkja á ný í húsi mínu?“

Í þeirri dimmbláu skífu sá ég engan vísi
aðeins svarta miðju og tóma,
aðeins tóma miðju og hring,
í húsi mínu.

En í tifinu hljómaði svarið,
ekki sorgbitið,
ekki ástríðufullt,
aðeins blátt-áfram staðreyndatif;
bráð-um, bráð-um.

Sett í skúffuna í ágúst 1999

Leikur

Drukknuð í rauðhærðu faðmlagi,
hef ég unað mér á freknubeit við axlir þínar.
Þambað vitleysuna af vörum þér
og prrrððrað þríhendu í hálsakotið.

Og leggi ég eyra við nafla þinn
má greina söng sálarinnar í fjarska:
„Allar vildu meyjarnar eiga hann,
hæfaddírífaddirallala og amen“.

Sting að lokum Litla Bleik í vettlinginn
og ríð til þings,
falleruð af ljóðlöngu falleríi forfeðra
sem súrraðir út úr rykugum deginum
vitja mín í hlátri.