Nafnlausir boggarar

grímaNafnlausar athugasemdir fara ekkert í taugarnar á mér nema þær feli í sér persónulegar árásir en því verð ég sjaldan fyrir.

Ég get alveg tekið afstöðu til ábendingar eða röksemdar á hennar eigin forsendum, ég þarf ekki að vita nafnið á bak við kenninguna til að ákveða hvað mér finnst um hana.

Hinsvegar skil ég ekki hversvegna sumt fólk skrifar ekki undir nafni. Ég skil vel það að hafa gaman af því að leika hlutverk og geri það gjarnan sjálf en hversvegna í ósköpunum vill sumt fólk ekki gangast við manneskjunni á bak við vefkarakterinn?
-Óttast það að aðrir taki ekki mark á því ef nafnið kemur fram?
-Heldur það að aðrir muni taka orð þess úr samhengi og dæma það út frá því litla sem kemur fram í skrifum þess?
-Hefur þetta fólk áhyggjur af því að vinir og kunningjar muni sjá í gegnum það ef þeir lesa það sem það skrifar?
-Eða heldur það að nafnleysið skapi því leyndardómsfulla ímynd og að bloggheimur liggi andvaka af spenningi yfir því að komast að því hver hann er þessi dularfulli maður sem segir svona margt gáfulegt?

Ja, maður spyr sig.

Helgarfrí fram að hádegi!

Nú er vika þar til ég get reiknað með að sjá árangur af ástargaldrinum. Nýtt tungl í dag en ég er ekki í neinu skapi til að galdra. Langar meira að gefa einhverjum uppskrúfuðum monthana undir fótinn og segja honum svo á kjarnyrtri íslensku hvað mér finnst um hann þegar hann fer að sperra á sér dindilinn, bara til að sjá sjallaglottið ummyndast í ráðleysisviprur. En svoleiðis gerir maður ekki. Ekki ef maður er almennileg manneskja. Halda áfram að lesa

Ofbeldi leysir vandamál

Einhver alvitlausasta rökvilla nútímans er sú að ofbeldi leysi engin vandamál. Ofbeldi leysir vandamál. Það er þessvegna sem það nýtur hvílíkra vinsælda.

Að vísu skapar ofbeldi oft fleiri vandamál en það leysir en það eru oftast:
a) vandamál sem einhver annar þarf að leysa
b) síðari tíma vandamál
c) tilbreyting frá vandamálinu sem varð til þess að gripið var til ofbeldis.

Ofbeldi er hagnýt lausn sem veitir útrás og páerkikk. Eina ástæðan til að nota tímafrekari aðferðir til að fá sínu framgengt er sú að ofbeldi er ómannúðlegt og elur af sér sjálfsbjargarleysi, grimmd og óhamingju.

Á vængum túrtappans

Tampon 2Kannski er fattarinn í mér lengri en gengur og gerist.
Eða þá að ég hef ekki fylgst nógu vel með þróuninni í auglýsingargerð síðustu árin.
Allavega lendi ég stundum í túlkunarvanda.

Ég á semsagt að kaupa bindi með stærri vængjum og ganga í guðdómlegum silkinærbuxum þótt ég sé með blæðingar. Ok. ég næ því. En hvað svo? Henda gömlu túrbrókunum út um gluggann??? Ég verð að játa að mér finnst það ekki mjög dannað.

Eða eru það fínu brækurnar sem ekkert blóð hefur komist í tæri við sem svífa yfir borginni? Sennilega á vængjum hins fullkomna dömubindis. Og eiga þá að tákna heimboð? Hey gæjs, ég er ekki á túr (með lygaramerki á tánum)og brókinni fleygt út sem fölsku sönnunargagni?

Mér finnst það líka ódannað.

Þegar ég er orðin stór ætla ég að skrifa metsölubókina Á vængjum túrtappans. Semsagt söguna af falli Framsóknarflokksins.

Öfmul

Í dag héldum við fyrsta barnaafmælið í Nornabúðinni.

Ég yrði ekki hissa þótt fleiri öfmul fylgi í kjölfarið. Seyðgerður mín er nefnilega sannkallaður leikskólakennari í hjarta sínu.

Þegar elliheimilin koma í heimsókn skal ég sjá um að hafa ofan af fyrir gestunum. Mér er ekkert illa við börn ég kann betur við þau í stykkjatali en hópum. Eldri borgarar verða kannski ekki eins yfir sig hrifnir af súkkulaðipöddum en þeir iða heldur ekki eins mikið þótt þeir innbyrði sykur.

Þórfreður

Þórfreður veldur mér heilabrotum.

Um tíma taldi ég mig þekkja manninn á bak við dulnefnið. Allavega hefði það verið mjög líkt manni sem ég þekki að kalla sig Þórfreð.

Svo kom í ljós að sá sem ég hélt að væri Þórfreður var i rauninni Du Prés. (Eða það er ég rúmlega sannfærð um) Sem ég tel víst að sé sá sami og einu sinni kallaði sig Dramus.

Ég á erfitt með að trúa því að engin tengsl séu milli Þórfreðar og Dramusar. Samt hef ég ekkert fyrir mér í því nema nöfnin.

Fyrsta galdrabrúðan sem ég bjó til var gerð úr dagblöðum og lopa. Hún var ekki falleg en galdurinn heppnaðist nú samt vel. Síðar varð til brúða sem heitir Dramus en þjónar sama tilgangi og blaðagöndullinn.

Kannski bý ég einhverntíma til galdur sem heitir Þórfreður.