Tilgangur mótmæla

SISpurt er: Af hverju geta þessir mótmælendur ekki bara haldið sig á þeim svæðum sem þeim hefur verið úthlutað til að mótmæla á?

Svarið: Af því að tilgangur mótmæla er ekki sá að skemmta sér við að veifa borða, heldur að knýja fram breytingar og vekja athygli á viðhorfum sem valdhafar og stórfyrirtæki komast upp með að valta yfir án nokkurra raka, af því að það hentar þeim. Mótmælendur ÆTLA að trufla starf og valda skaða. Það er yfirlýstur tilgangur, af því að það er eina aðferðin sem nokkurntíma hefur skilað nokkrum árangri. Það væri einfaldlega fáránlegt að mótæla einhverju í góðu samstarfi við fyrirtækin og stofnanirnar sem verið er að mótmæla og eftir forskrift frá þeim. Mótmælendur fyrir austan hafa ekki beitt nokkurn mann ofbeldi. Þeir eru hinsvegar, af mjög einbeittum brotavilja að leggja sig fram um að valda náttúruspillandi skítafyrirtækjum eins miklum skaða og mögulegt er. Verst hvað hið mesta mögulega er sorglega lítið.

Hvísl

Gréstu í brjósti þér góði
er gafstu mér kost á
ást þinni umbúðalaust
af órofa trausti?
Leistu mig langsvelta þjást
og listina bresta?
Sástu hve návist þín nísti?
Naustu þess? Fraustu?

Víst er ég valdi þig fyrst
það veistu minn besti.
Haltu mér, leystu minn losta
og ljóstu með þjósti.
Kreistu að kverkum mér fast
og kysstu og þrýstu.
Veist að í hljóði ég verst
ef varirnar bærast.

Og svarta Górillan hefur afpantað tímann

Örlögin geta átt það til að vera kaldhæðin. Það er samt ekki svo margt sem veltur á örlögunum. Við getum ekki haft stjórn á veðri og jarðhræringum, efnahagskerfinu eða húsnæðismarkaðnum (allavega ekki hvert um sig). Við getum farið varlega og lifað heilbrigðu lífi en við útilokum ekki möguleikann á slysum og sjúkdómum. Flestu öðru ráðum við sjálf og afstaða okkar skiptir að sjálfsögðu sköpum um það hvort við getum talið okkur hamingjusöm eða farsæl.

Yfirleitt getur maður skrifað kaldhæðnislegar aðstæður á sinn eigin fávitagang. Og þannig verður maður Megas. Nema maður vilji frekar vera Kristján Fjallaskáld. Það held ég hafi verið boooring.