Uppreist

ÁJSumt er ekki hægt að laga. Ekki einu sinni þótt maður sé í réttum flokki.

Sá sem hefur fengið á sig dóm, verður aldrei framar vammlaus. Ekki nema málið sé tekið upp og sakleysi hans teljist sannað.

Hann getur hlotið fyrirgefningu yfirvalda, jafnvel almennings en æra hans verður ekki „reist upp“. Hann getur fengið leyfi til að bjóða sig fram til þingmennsku en þó svo han fái þingsæti verður hann alltaf þingmaðurinn sem laug, stal og misnotaði aðstöðu sína. Vonandi í þátíð en þáið er eins og skugginn í ævintýri H. C. Andersens, það lifir sjálfstæðu lífi.

Hann getur útskrifast úr fangelsi og risið úr fremur eymdarlegri aðstöðu en æra hans rís ekki upp. Ekki nema á pappírum.

Skáldsagan sem ég ætla að skrifa

Þegar ég skrifa skáldsögu verður einn kaflinn á þessa leið.

-Hurru, Valgerður, það var að koma bréf. Hann Grímur Björns er með eitthvað vesen.
-Jæja. Og hvað er það nú?
-Æi, bara þetta sama. Stíflan getur lekið og allt voða hættulegt og við græðum ekkert á þessu og jaríjarí.
-Ekkert nýtt sumsé?
-Nei ekki þannig en Grímur er nottla enginn lopapeysuhippi, þannig að við verðum líklega að láta liðið halda að við tökum mark á honum.
-Skrambans. Þurfum við þá að funda um þetta eða eitthvað?
-Tja, ætli við verðum ekki að koma aðeins inn á þetta, svona formsins vegna.
-Gess só.
-Viltu kíkja eitthvað á þetta?
-Guð minn góður nei, ekki ef ég kemst hjá því. Er annars nokkur ástæða til þess?
-Nei, ekki nema þér leiðist.
-Ókei. Reynum að afgreiða þetta bæði snyrtilega og snarlega.

Kikkið

Mér finnst gaman að vera flink í einhverju. Mér finnst gaman að líta vel út. Mér finnst gaman þegar fólk heldur að ég sé klár,

En ekkert af þessu gefur mér sama egóbústið og það að eiga eignir umfram skuldir.
Og það gerir mig að kapítalista þótt mig langi ekki sérstaklega til að horfast í augu við það.

Að búa við persónunjósnir

Það er langt síðan ég fékk staðfestingu á því að sími Byltingarinnar var hleraður. Hélt fyrst að þetta væri paranoja í honum en ég á vini á réttum stöðum og þetta ku víst vera tilfellið. Eða var það allavega um hríð. Hann ræðir ekkert sem máli skiptir í þann síma svo það er eins líklegt að menn telji tíma og fé lögreglunnar illa til þess varið að komast að raun um hvort þessi ógnvaldur þjóðarinnar ætli að hitta afa og ömmu eða kaupa skólabækur eftir hádegið. Halda áfram að lesa