Rökvilla dagsins

Kosturinn við að treysta engum er sá að maður leggst ekki í rúst þótt einhver bregðist manni. Ókosturinn er sá að ef maður er ekki með mikilmennskubrjálæði á lokastigi, er manni lífsins ómögulegt að trúa því að maður sé eina manneskjan í veröldinni sem treystandi er á. Og þá annaðhvort hættir maður að treysta sjálfum sér, eða maður setur traust sitt á einhvern sem fyrr eða síðar gæti brugðist.

Ég held að Skoðunarmaðurinn hafi rifið tunguhaftið. Eins gott að það var ekki meyjarhaft. Ég er samt ekkert að pæla í að skrifa honum eða neitt. Undarleg bréfaskrif eru víst skírasta birtingarmynd geðveilu minnar, skilst mér.

Mér finnst ég frekar geðveik þessa dagana en það hefur mér aldrei fundist þegar ég hef lagst í bréfaskrif. Samkvæmt því hlýt ég að vera í aldeilis fínu formi.

Skrattinn í leggnum

Hann brölti um í sauðarleggnum í nótt og tókst að hagga beininu, m.a.s. velta því nokkrum sinnum þannig að glumdi í gólfinu undir rúminu mínu. Þegar ég vaknaði í þriðja sinn, hótaði ég að sækja róðukross og fimmarmastjörnu og Ægishjálm ef hann hefði sig ekki hægan.
-Einhversstaðar verða vondir að vera, sagði hann.
-Gakktu þá í Sjálfstæðisflokkinn gerpið þitt, svaraði ég.
-Mig langar í karlmann! gargaði Birta. Kastaðu þessum skrattakolli fram af svölunum og sæktu strák í staðinn.
-Ef þú fengir að ráða myndirðu láta okkur éta allar kökurnar í bakaríinu,
sagði ég.
-Já en bara sætu kökurnarm ekki súrdeigsbrauðin og við færum EKKI í ruslagáminn til að sækja uppþornaðar kúmenkringlur.
-Þær eru nú samt hollari og það vill svo til að það er ég sem ræð þessu
sagði ég.
Þá hló Skrattinn í sauðarleggnum svo hátt að ég hélt að tappinn hrykki úr holunni.

Felagidaudur

Felagidaudur ku vera að rísa til lífsins. Anna stóð fyrir valdaráni þar í kvöld og ég fékk að leika Frumkvöðul. Það var gaman.

Langt síðan ég hef leikið við stelpur.

Hægt

Ef það er rétt að góðir hlutir gerist hægt, þá hljóta spilin sem ég pantaði og borgaði þann 11. september að berast mér á ólíkinda giftusaman hátt. Líklega mun Johnny Depp afhenda mér þau, ásamt bónorðsbréfi.

Angurgapi

Í nótt braust einhver inn til mín og framdi skemmdarverk.
Málaði þennan líka ljóta skratta á vegginn í svefnherberginu mínu. Allavega blasir hann við og ég minnist þess ekki að hafa málað hann sjálf.

Á morgun hitti ég mann einn, prúðan, orðhagan og fríðan sýnum. Kannski kemur óþokkinn og málar hvítt yfir skrattann á meðan.