Prrhmprr

Gjörsamlega snarklikkaðir dagar framundan. Ég VERÐ að fá meira pláss.

Ég er ekki vön því að jóla neitt að ráði fyrr en upp úr 18. desember en mér skilst að það sé siðferðileg skylda búðarkvendis að vera í jólaskapi frá 1. nóvember hið síðasta. Ég er hrædd um að Nornabúðin verði fremur athvarf hinna jólafælnu þetta árið a.m.k. því Alexander gefur sig ekki út fyrir að vera sérstakt jólabarn fremur en ég sjálf. Hugmyndaflug okkar hefur satt að segja beinst að flestu öðru en skreytingum sem örva jólaeyðlubrjálsemi landans.

Hexía sagði einhverntíma á vefbókinni sinni sálugu og syrgðu að hún hefði jólað hjá sér með því að strá glimmeri á leðurblökurnar. Ég á reyndar engar leðurblökur en hinsvegar mætti kannski jóla búðina upp með því að setja glimmer á krákuvængina eða hengja rauðar kúlur neðan í hrafnsklærnar. Eða músastiga á milli þeirra.

Sætt.

Blautir draumar

Það er til marks um veruleikafirringu mína að af og til verð ég bálskotin í einhverjum bloggara sem ég hef aldrei séð. Ég hef staðið sjálfa mig að því að „stalka“ vefbækur og sökkva mér í dagdrauma um höfundinn. Tilfinningin er nákvæmlega sú sama og þegar ég verð hrifin af strák sem ég þekki lítið eða ekkert, sama hormónaflæðið, hjartslátturinn og gæsahúðin. Eini munurinn er sá að þegar um skrif er að ræða verð ég skotin í viðhorfum og ritstíl en í hinu tilvikinu er það útlitið sem ég fell fyrir. Halda áfram að lesa

Hreint ekki sýkn

Screenshot-from-2014-08-15-124625

Sýknudómur merkir að dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fullyrða svo óyggjandi sé, að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök.

Nú hefur héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að Hannes Hólmsteinn hafi vissulega gert nákvæmlega það sem Auður Laxness gefur honum að sök, þ.e. að brjóta gegn lögum um höfundarrétt. Að vísu kemst dómurinn einnig að þeirri niðurstöðu að þar sem Hólmsteinn hafi ekki skaðað neinn (nema þá heiður sinn) með tiltækinu og vegna þess að Auður frestaði því of lengi að höfða mál, sé ekkert hægt að gera við brotinu nema segja sveiattan við skúrkinn. Það merkir samt ekki að Hannes hafi verið sýknaður samkvæmt réttri merkingu orðsins.

Ekki dæmigerður

-Auðvitað eru þetta bara leifar af úreltu fyrirkomulagi en ég held að körlum finnist oft óþægilegt, jafnvel niðurlægjandi ef konan splæsir, sagði ég.
Lærisveinninn strauk sítt hárið frá snyrtilega skyggðum augunum og renndi lökkuðum nöglum vinstri handar niður eftir uppáhalds pilsinu sínu.
-Ég segi nú sem karlmaður, að mér þætti það bara fínt ef kona byði mér grand út og borgaði dæmið,sagði hann.

Nennussikki

Mig langar í karlmann. Til eignar, eins og fastagestum ætti að vera orðið ljóst, en þar sem fátt fagurra eiginmannskandidata hefur rekið á fjörur mínar (þrátt fyrir tilboð um hundrað þúsundkalla í fundarlaun) virðist rökrétt að finna drykkfelldan saurlífissegg til bráðabirgða.

Það er sosum enginn skortur á hórlífum alkóhólistum á höfuðborgarsvæðinu, það er ekki málið. Mér hrís bara hugur við því að þurfa að fara í gegnum allt kennsluefnið; allt frá „það er ekki hægt að hækka í mér með því að snúa upp á geirvörturnar“ og að „þú kemur mér ekkert frekar í gang með því að þjösnast á play-takkanum“. Flókin tæki konur.

Kannski spurning um að taka bólfimi inn í aflúðunarnámskeiðið? Veit einhver um félag eða fyrirtæki sem væri til í að styrkja verkefið t.d. með því að lána æfingabrúður? Ég er nebbla ekki viss um að það myndi mælast vel fyrir ef við létum þátttakendur para sig saman til að æfa strok- og kossatækni. Anna heldur reyndar að það væri hægt að fá þó nokkuð marga til þess með sýnikennslu því þorri karla ku víst gera hvað sem er í skiptum fyrir „lessusjóv“.

Þetta er náttúrulega fötlun.

Femínismi er líka tilfinningin sem grípur þig …

-þegar þú kemur heim úr vinnu kl 20:15 og byrjar á því að taka niður þvottinn, ekki af því að maðurinn þinn hafi ekki nennt því heldur hefur honum bara ekkert dottið það í hug

-þegar þú, nógu gömul til að vera amma, segir karlmanni með stolti að fyrirtækið þitt sé farið að skila hagnaði, færð einkunnina „dugleg stelpa“, og veist að það er ekki hugsað sem móðgun heldur hrós

-þegar karlmanni lýst vel á þig, þú sýnir engin viðbrögð sem gefa til kynna að það sé gagnkvæmt en hann heldur samt að þú sért ástfangin af honum

-þegar þú viðurkennir að fallegar konur geti kannski við ákveðnar aðstæður haft kynferðisleg áhrif á þig og kærastinn þinn tekur því sem vilyrði fyrir því að fá aðra konu upp í rúm

-þegar þú kemst að því að unglingsstrákur með enga menntun eða starfsreynslu er á hærri launum en þú en getur ekkert gert í því þar sem launaleynd ríkir hjá fyrirtækinu

-þegar þú áttar þig á því að reglan; sömu laun fyrir sömu vinnu, gildir ekki í íþróttum

-þegar þú hlustar á rökin „þér finnst það gott þegar þú ert búin að venjast því“ frá tíunda karlinum í röð

-þegar þú kynnist fullkomnum karlmanni sem segir þér, geislandi af umhyggju að ef komi til sambúðar muni hann „leyfa þér“ að vera heima og skrifa