Karlfyrirlitning mín er svo áköf þessa dagana að ef kynskiptaaðgerðir útheimtu ekki sjúkrahússlegu myndi ég slá til. Ég þekki nú samt sjálfa mig nógu vel til að gera mér grein fyrir því að þetta er varnarháttur og eftir 2-3 mánuði verður mig aftur farið að langa í karlmann. Og þá ætla ég að vera undirbúin.
Á laugardagskvöldi er rjómi þjóðarinnar væntanlega að ylja sínum ektakvinnum. Botnfallið á djamminu. Og restin? Þeir sem á annað borð hafa áhuga á því að para sig en eru ekki á kafi í einhverju félagsstarfi eru væntanlega hangandi á netinu. Ég skráði mig inn á einkamal.is fyrir nokkrum dögum og gærkvöldið fór í þá leiðinlegu iðju að sía úr hroðanum.
Í fyrsta sinn sem ég reyndi þessa leið, fyrir mörgum árum, byrjaði ég á því að hafa samband við nokkra sem mér fannst koma til greina. Enginn þeirra reyndist koma til greina. Ég svaraði líka til að byrja með öllum sem höfðu samband, svo framarlega sem þeir voru ekki dónalegir, fannst það bara sjálfsögð kurteisi. Ég gafst þó fljótt upp á því, enda sumt af því sem barst mér afar langt frá því að vera svaravert.
Nú er ég búin að reyna þess leið nokkrum sinnum og ekkert hefur komið út úr því ennþá. Samt þekki ég fáein dæmi um sambönd sem virðast nokkurnveginn í lagi sem hófust þarna og ef maður gerir kröfu um skilvirkni gæti þetta alveg verið reynandi. Ég fékk tugi bréfa strax á fyrstu klukkutímunum en það er ekki eins jákvætt og það hljómar (það gerist alltaf fyrsta daginn, allavega ef maðurinn er kona). Það er ennfremur mín reynsla að maður fær endalaust póst frá sömu fávitunum svo í stað þess að svara þeim öllum, byrjaði ég strax á því að „blokkera“ þá sem mér leist ekki á. Hér fá fordómar mínir aldeilis að blómstra. Ég lokaði án þess að svara og án frekari athugunar á eftirtalda hópa:
-Of gamla. Sumir þeirra sem skrifuðu mér eru eldri en pabbi minn.
-Of unga. Ég fékk t.d. tvö bréf frá drengjum sem eru yngri en Darri
-Of þunga. Já, ég bara…
-Þá sem búa í útlöndum eða í fjarlægum landshlutum.
-Sjómenn, flugmenn og aðra sem eru aldrei heima. Ég get alveg eins verið ein alla daga eins og að sitja í festum.
-Þá sem eru skráðir í skyndikynni. Auðvitað geta menn viljað fast samband þótt þeim finnist skyndikynni skárra en ekkert en þeir hafa þá væntanlega vit á því að búa sér líka til nikk sem gefur til kynna að þeir séu í makaleit.
-Þá sem eru skráðir í bdsm. Allt í lagi að hafa gaman af leðri en ef þeir eru að leita að föstu sambandi skrá þeir sig í vinátta/spjall eða stefnumót, jafnvel þótt þeir hafi sérstakan smekk.
-Þá sem eru að leita að tilbreytingu.
-Þá sem velja sér subbuleg notendanöfn á borð við harðurlimur, analfingrun eða konan_erlendis. (Ég er ekki að búa þetta til!)
-Þá sem velja nöfn fræga fólksins sem nikk. Fólk sem er með heilbrigða sjálfsmynd vex upp úr því um 16 ára aldurinn.
-Þá sem koma upp um fávitahátt eða aumingjaskap í auglýsingunni sinni, t.d. lokaði ég umsvifalaust á alla sem lýsa sjálfum sér með orðunum party-animal eða sex-maniac, aukinheldur þá sem eru að leita að bara einhverju.
-Þá sem segjast halda að þeir líti vel út, séu glaðværir eða fjárhagslega sjálfstæðir. Hvað er eiginlega að mönnum sem þekkja sjálfa sig ekki nógu vel til að fullyrða um þessa hluti?
-Þá sem eru nógu hallærislegir til að skrifa hæbbs, jábbs, neibbs, eða hæ skvís, kva sejist? í fyrsta bréfi.
-Þá sem eru að leita að einhverju sem ég stend ekki undir svosem barnlausum gellum með stór brjóst, eða stelpum sem hafa mikinn áhuga á íþróttum.
Þegar þessu var lokið svaraði ég því sem eftir var, spurði um reykingar, atvinnu og félagslega stöðu. Ekki voru það mörg bréf en meiri hluti svaranna sem ég fékk kallaði á nýja lokunarhrinu. Í þessari umferð fuku eftirtaldir hópar:
-Nokkrir sem eru ófærir um að tjá sig í rituðu máli. Ég lokaði t.d. á þennan; ágjætlega sætur einmanna gaur að leyta eftir vinkonnu til að spjala og kanski kinast betur seina. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti lesblindum en ég hyggst halda fast í fordóma mína gagnvart þeim sem eru lesblindir en hafa ekki rænu á því að gera neitt í því. Það er nefnilega vel hægt að læra bæði stafsetningarreglur og tileinka sér mannamál þótt maður sé lesblindur.
-2 örykjar og 1 atvinnulaus. Ég hef ekkert á móti öryrkjum eða þeim sem missa vinnuna en ég er að leita að einhverjum sem gerir líf mitt betra en ekki erfiðara. Ég myndi ekki snúa baki við vini sem missir heilsuna eða á erfitt með að finna atvinnu við hæfi en ég leita þá heldur ekki uppi.
-3 kvæntir menn sem eru að leita að viðhaldi eða aukakonu til að skemmta þeim hjónunum.
-Margir reykingamenn.
-Margir barnlausir menn. Mig vantar ekki fleiri börn og mun ekki eignast fleiri sjálf en mér er ekkert illa við börn og ég trúi ekki á karlmann sem er bæði með sálina í lagi og sáttur við að vera barnlaus.
-Nokkrir sem eru kannski að leita að maka en samt ekki tilbúnir í skuldbindingar alveg á næstunni. Hvern fjandann þýðir það á mannamáli?
-2 menn sem eiga börn sem þeir „fá ekki“ að umgangast. Ef karlinn hefur ekki bein í nefinu til að berjast gegn slíku óréttlæti, nenni ég ekki að þekkja hann.
-Sá sem eru fráskilinn en samt eiginlega ekki alveg fluttur út frá sinni fyrrverandi.
-Þessi sem spurði hvort ég væri ein heima að „dúlla mér“. Fáviti!
-Nokkrir sem gáfu nákvæmar upplýsingar um limstærð sína og/eða smáatriðalýsingar á því sem þeir sækjast eftir í bælinu. Ef þetta er það sem þeim finnst mikilvægast að segja mér um sjálfa sig, þá bara hef ég ekki áhuga.
-Þessi sem er með grunnskólapróf og skyndihjálparmámskeið og ætlar kannski í „einkvað nám seinna“. Það er ekki menntunarstigið sem mér finnst frágangssök, heldur hitt að ég fæ á tilfinninguna að hann sé að gera sér upp áhuga á námi. Til hvers?
Blokklistinn minn nær nú yfir um 300 manns. Ég kann ekki við að kalla hann óvinalista. Þetta eru ekkert óvinir mínir, heldur bara menn sem ekki fylla markhópinn „hugsanlegur framtíðarmaki Evu“ og ég sé því ekki ástæðu til að eyða tíma í að spjalla við á netinu. Árangur? Nei, ég á ekki bókað stefnumót. Kannski er þetta ekki beint vænleg leið en ef ég hefði farið á djammið væri ég veik og þreytt núna, hefði eytt pening í tóm vonbrigði og ekki komist yfir að tékka á jafn mörgum. Ég er þó allavega búin að útiloka um 300 manns sem ýmist eru fávitar eða í þannig aðstöðu að samband kæmi hvort sem er ekki til greina. Kannski er það as good as it gets.
Mikið er nú gott að vera í þessum karlhatursfasa núna. Ég er ekki baun svekkt.
Það er sunnudagur og ég er í fríi í allan dag! Vííí!