Mátti ég ekki alveg fá ís?

Eymingja Alcan búinn að eyða hátt í milljarði í undirbúning stækkunarinnar og svo bara virkaði ekki þetta fína trix með Bjögga Halldórs. Æjæj hvað ég finn til með þeim. Spurning hvort ég færi þeim ekki 88 kr úr Fórnarsjóði Mammons í sárabætur.

Af þessu geta stórfyrirtæki með sértæka frekjuröskun lært að það getur borgað sig að biðja um leyfi fyrst.

Smá klemma

Ég get fengið nákvæmlega þá íbúð sem ég vil, fyrir 130.000 kr meira en það hæsta sem ég er tilbúin til að borga.

Ég gæti áreiðanlega galdrað fram 130.000 í viðbót en það bara ofbýður sanngirniskennd minni. Á hinn bóginn er frekar hallærislegt að missa af akkúrat því sem maður vill, fyrir skitinn 130.000 kall, sem maður getur reddað.

Nú þarf ég að hugsa út fyrir rammann.

 

Eymd

Ég ætla að loka búðinni yfir páskana. Hef svona verið að velta fyrir mér þeim möguleika að vera bara þar og vinna eins og vitleysingur. Nóg verkefni framundan. Gæti haft yfirdrifið nóg að gera 14 tíma á dag, jafnvel þótt búðin væri lokuð. Ég þarf bara svo sárlega á fríi að halda. Þyrfti helst tilbreytingu, skipta um umhverfi, brjóta upp rútínuna, hitta fólk, gera eitthvað.

Ég hlakka samt ekki baun til þess að vera í fríi. Vandinn er sá að ég nenni ekki að fara neitt, nenni ekki að gera neitt og nenni ekki að hitta neinn. Hef ekki einu sinni druslast í leikhús nema einu sinni það sem af er árinu, sótt eina tónleika og farið fimm sinnum í bíó. Sá ekkert á frönsku kvikmyndahátíðinni. Núna nenni ég ekki einu sinni í vinnuna og klukkan að ganga 10. Það væri mjög eðlilegt ef ég væri útkeyrð af þreytu eða væri að fara að gera eitthvað ógurlega spennandi í kvöld.

(Reyndar varð ég svo sjokkeruð yfir sjálfvalinn eymd minni í síðustu orðum skrifuðum að ég pantaði mér leikhússmiða í kvöld. Ætla hér með að rífa mig upp og koma mér að verki.)

 

Aldrei endanlegt

Ég vildi óska þess að Árni hefði rétt fyrir sér en það er hæpið og raunar ólíklegt að niðurstaðan sé endanleg. Í lýðræðisríki er niðurstaða aldrei óbreytanleg. Þessi niðurstaða er endanleg miðað við núgildandi forsendur, sem eru allar breytilegar, flestar síbreytilegar og sú mikilvægasta; bæjarstjórnin sem tók þá ákvörðun að niðurstaðan yrði bindandi, gæti fokið í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Vitanlega er ný bæjarstjórn ekki bundin af ákvörðunum forvera sinna. Ef svo væri hefði það lítinn tilgang að skipta um valdhafa. Þannig að ef íhaldsmenn ná meirihluta næst geta þeir gert það sem þeim sýnist, og þannig á það að vera.

Mér þykir það leitt en eina leiðin til að hindra stækkun álversins í Straumsvík, sem og útþenslu annarrar stóriðju, er sú að Sjálfstæðisflokkurinn fái sem allra, allra minnst fylgi.

Leyndur aðdáandi

Vinkona mín komst að því fyrir tilviljun að einhver hefur nógu mikinn áhuga á fjárhagsstöðu minni, til að kynna sér mánaðarlega hvort ég sé á vanskilaskrá eða með einhver opinber gjöld ógreidd. Ósköp krúttlegt að vita til þess að einhver óviðkomandi beri slíka umhyggju fyrir mér að það sé hluti af rútínunni að tékka á því hvort ég sé nokkuð í vandræðum. Ég hef enga trú á að það sé einhver heildsalanna minna sem stendur í þessu reglubundna snuðri því á það samstarf hefur engan skugga borið. Ég versla fyrir hámark 80.000 í hvert sinn, oftast mun lægri fjárhæðir, og staðgreiði oftar en ekki, fæ líka alltaf skjóta og góða þjónustu. Halda áfram að lesa