Aldrei endanlegt

Ég vildi óska þess að Árni hefði rétt fyrir sér en það er hæpið og raunar ólíklegt að niðurstaðan sé endanleg. Í lýðræðisríki er niðurstaða aldrei óbreytanleg. Þessi niðurstaða er endanleg miðað við núgildandi forsendur, sem eru allar breytilegar, flestar síbreytilegar og sú mikilvægasta; bæjarstjórnin sem tók þá ákvörðun að niðurstaðan yrði bindandi, gæti fokið í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Vitanlega er ný bæjarstjórn ekki bundin af ákvörðunum forvera sinna. Ef svo væri hefði það lítinn tilgang að skipta um valdhafa. Þannig að ef íhaldsmenn ná meirihluta næst geta þeir gert það sem þeim sýnist, og þannig á það að vera.

Mér þykir það leitt en eina leiðin til að hindra stækkun álversins í Straumsvík, sem og útþenslu annarrar stóriðju, er sú að Sjálfstæðisflokkurinn fái sem allra, allra minnst fylgi.