Lærlingurinn les í rúnir fyrir Dindilhosu:

Lærlingurinn: Og framtíðarrúnin er Fé. Það merkir að þótt þú hafir góðar tekjur í sumar verður þú að fara vel með þær. Þú átt ekki að eyða öllu, heldur finna leið til að láta peningana þína blómstra.
Dindilhosan: Hvernig blómstra peningar?
Lærlingurinn: Eins og kindur.

Reynsla mín af skeggi

Ég hef aldrei skilið þessa hrifningu kvenna á skeggjuðum körlum.

Ég hef kysst skeggjaðan mann. Mér þótti vænt um þann mann. Annars hefði ég heldur ekki kysst hann. Skegghárin á honum stungust upp í nefið á mér. Ég sagði honum að hormottan yrði að fjúka ef hann vildi fleiri kossa frá mér og hann varð hálfmóðgaður en lét þó undan.

Finnst konum í alvöru þægilegt að hafa eitthvað loðið framan í sér eða er fólk almennt ekkert sérstaklega mikið fyrir að kyssast?

 

Rómantík

-Þú ert fyrsta konan sem ég kynnist sem leggur ekkert upp úr rómantík, sagði hann. Ég fann að ég varð skrýtin á svipinn.
-Hvers vegna heldurðu að ég leggi ekkert upp úr rómantík, sagði ég eftir stutta þögn, kannski eilítið kuldalega og nú var það hann sem varð skrýtinn á svipinn.
-Ja, ég hef aldrei gert neitt fyrir þig sem getur talist rómantískt. Halda áfram að lesa

Stæðilegir menn óskast

Jæja, þá er ég búin að setja smáauglýsingu í Fréttablaðið. Ég ákvað að stofna ekki söfnunarreikning fyrr en réttu mennirnir eru fundnir. Ég hef reyndar ekki ennþá fengið nein viðbrögð við auglýsingunni (enda ekki langt liðið á daginn) en ég var að fá tölvupóst þar sem ég var spurð hversvegna ég vildi ekki frekar láta rassskella bankaráð.

Ég hefði reyndar ekkert á móti því og ef nægar fjárveitingar fengjust væri eflaust hægt að hafa 3-4 menn í fullri vinnu við lagafæra siðferðið hjá ýmsum höfðingjanum. Ég hef þó ekki bolmagn til að taka alla í gegn sem eiga það skilið og alveg finnst mér dæmigert að þeir sem ekki eru tilbúnir til að standa í neinum aðgerðum sjálfir, skuli telja sig rétta fólkið til þess að segja þeim fáu sem sýna viðleitni fyrir verkum.

Smá viðbót í sparibaukinn

Ég býst svosem ekki við því að bankastjóragreyin muni mikið um þennan 200.000 kall. Þeir borga svo hroðalega skatta af þessu blessaðir mennirnir. Hvernig væri að hækka frekar örorkubætur og lægstu laun um sömu upphæð? Það fólk fyndi þó allavega fyrir hækkuninni jafnvel þótt það hefði nógu lítið vit á fjármálum til að greiða tekjuskatt í stað fjármagnstekjuskatts.