-Mér finnst ekkert siðferðilega rangt að hata þetta pakk. Það bara skekkir sjálfsmynd mína. Ég er nefnilega ákaflega rökvís og það er ekki rökrétt að sóa orku í tilgangslausa geðshræringu yfir óumbeðnum fréttum af fólki sem kemur manni ekki lengur við. Ég er samt reiðust yfir því að hafa keypt helvítis lygina. Trúað því að það væri eitthvað mikið og óviðráðanlegt að, þegar það var í rauninni ekkert annað en helvítis dóp. Mér finnst sjálfsblekking ekki smart og ég hafði allar forsendur til að sjá í gegnum þetta.
-Ég er ennþá á því að þú ættir að gefa Al Anon séns, sagði hann, svo varfærnislega að ég fékk það ekki af mér að springa.
Ef til er aumingjakölt sem ég hef meiri viðbjóð á en AA samtökin, þá er það Al Anon. Samsafn vesalinga sem hafa valið sér að lifa við óþolandi ástand. Undirlægjur sem þykjast geta búið með ábyrgðarlausum kúgara án þess að taka ábyrgðina af honum, án þess að láta hann kúga sig. Bjóða börnunum sínum upp á stöðugt rugl líka. Lítil reisn yfir því, verð ég að segja.
Ég segi það enn og aftur; mér finnst sjálfsblekking ekki smart. Verst að enginn hefur nokkurntíma lofað mér því að það væri eitthvað sérstaklega auðvelt að halda klassanum.