Ammli

Vaknaði tvisvar við símann í nótt. Get svosem alveg fyrirgefið þeim sem hringja á næturnar þegar tilgangurinn er að syngja afmælissöng, úr partýi sem ég hefði kannski mætt í ef mér þætti ekki skemmtilega að sofa. Já og Elías er á sérsamningi. Vaknaði svo fertug í morgun. Gömul og vitur kona í stelpulíkama. Ætla samt ekki að fagna fyrr en í haust þegar ég er flutt inn í fallegu, fallegu íbúðina mína og vinir og vandamann komnir úr sumarfríi.

Ég er samkvæmt hefð að vinna á ammlisdaginn minn. Notaði morguninn til að útbúa kræsingar ofan í 16 manns (jamm, nornafundur í kvöld) og á eftir að útbúa smágaldra fyrir hópinn og nokkrar pantanir.

Fæ samt pönnukökur hjá pabba og Rögnu í dag.

 

Afrekaskrá fjórða áratugarins

Eftir nokkra klukkutíma verð ég fertug.

Fyrir 20 árum fannst mér að það hlyti að vera beint samhengi á milli þess að vera fertugur og ráðsettur. Mér líður samt ekkert ráðsett. Ég er heldur ekkert á leið í neina miðaldurskrísu. Ég hef upplifað tímabil sem ég hef haft meiri frítíma og lagt meiri rækt við heilann í mér en í heildina tekið hef ég aldrei verið jafn sátt við lífið og sjálfa mig. Halda áfram að lesa

Fyrr má nú rota…

Ég ber afskaplega litla virðingu fyrir „best fyrir“ dagsetningum á matvöru. Ég lít á slíka merkingu sem ábendingu um það hvenær maður ætti ekki að borga fyrir vöruna en ekki sem heilagri tilskipun um að henda henni. Lykt og bragð kemur allajafna upp um skemmda fæðu og ég sé enga ástæðu til að bæta nothæfum mat við sorpbirgðir veraldarinnar. Sjoppmundur vinur minn er sama sinnis og gefur mér stundum vörur sem eru orðnar of gamlar til að hann geti selt þær. Ég geri það sama, gef uppáhaldskúnnum krem og olíur sem eru að renna út eða býð upp á köku þegar ég sé fram á að hún fari annars í ruslið.

Það hlýtur nú samt að vera einhver munur á því að vera nýtinn og að nota magann á sér sem ruslafötu. Í gær braut ég allavega það prinsipp að láta nef og tungu um að meta ástandið. Ég rakst á sinnepsbrúsa í kæliskáp föður míns. Hann var merktur best fyrir 07 2001. Ég veit ekki hversu lengi sinnep geymist en hugsaði sem svo að ef á annað borð gæti myndast eitrun í sinnepi yrði þetta ættargóss að teljast varasamt. Þar sem dagsetningin var orðin máð, ákvað ég að gefa forræðishyggju minni lausan tauminn og forða föður mínum frá bráðum bana af völdum sinnepseitrunar.

Þetta var frekar sárt. Flaskan var næstum því full. Sem bendir reyndar til þess að pabbi sé ekki nógu sólginn í sinnep til að leggjast í þunglyndi yfir tjóninu.

 

Er Æðrimáttarkjaptæðið allsráðandi?

-Þú misskilur þetta, sagði hann. Æðri máttur þarf ekkert að samræmast þeirri guðshugmynd sem við ólumst upp við. Æðri máttur getur verið hvaðeina sem þú trúir að sé sterkara en þú sjálf. Ég er trúlaus sjálfur. Sennilega harðari trúleysingi en þú og í mínum huga er Æðri máttur bara samtökin. Halda áfram að lesa