Kannski …

Það urðu mér ákaflega mikil vonbrigði að fá hvorki VG né Íslandshreyfinguna í ríkisstjórn. Ég hef löngum haft horn í síðu Samfylkingarinnar og treyst fáum þar á bæ en frá síðustu stjórnarmyndun hefur Össur vaxið mikið í áliti hjá mér. Mér sýnist á öllu að við séum loksins búin að fá iðnaðarráðherra með siðferðiskennd. Vonandi tekst honum að vinna þetta mál. Ef Össur heldur það út allt kjörtímabilið að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða, ætla ég að kjósa Samfylkinguna næst.

Vel heppnuð aðgerð

Segið svo að beinar aðgerðir beri ekki árangur. Fyrirtækið varð fyrir fjárhagstjóni sem það mun aldrei fá bætt. Það er eitt af markmiðum beinna aðgerða. Annað markmið er að halda umræðunni lifandi og kann ég stórum hópi Moggbloggara bestu þakkir fyrir bullið í sér. Það sýnir bæði taugadrulluna sem grípur um sig og heldur umræðunni í gangi.

Einkar gáfuleg ákvörðun

Það lítur út fyrir að Íslendingar muni af ráðsnilld sinni splæsa fríu fæði og húsnæði á meðlimi Saving Iceland.

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að fólk sem er vant því að búa vikum saman í tjöldum og trjáhýsum, jafnvel yfir veturinn, komast stundum ekki í bað vikum saman og nærast á því sem er í boði hverju sinni, hversu óspennandi sem það er (ég veit t.d. að 5 daga í röð bauð anarkistaeldhúsið uppi í Mosfelssdal upp á kartöflurétt til að bjarga kartöflum sem lágu undir skemmdum og þau fengu ekki eina kvörtun), kippi sér eitthvað upp við að fá viku frí til að lesa pólitískar bókmenntir og kynna málstað sinn fyrir afbrotamönnum sem margir hverjir væru alsto tilbúnir til að beita aðferðum sem ganga mun lengra en aðgerðir hreyfingarinnar? Heldur einhver að þetta verði til þess að þau hætti baráttunni?

Ég þekki þennan unga jarðfræðing. Ég hef aldrei séð hana verklausa nema rétt á meðan hún er að lesa sér til um jarðfræði Íslands og áætlanir Landsvirkjunnar. Ég spái því að hún nýti þessa átta daga til að lesa og skrifa við mun þægilegri aðstæður en hún hefur haft síðustu mánuði.