Prúðmannleg mótmæli

-Úff þetta hljóta að vera slöppustu mótmæli Íslandssögunnar.
-You wish! Ég hef verið viðstaddur mörg mótmæli sem voru bæði fámennari og slappari.
-Nú? hvaða mótmæli voru það?
-Mótmæli sem enginn man eftir, auðvitað.
-Og enginn vissi einu sinni af.
-Er það ekki nákvæmlega þetta sem er verið að hvetja okkur til að gera, mótmæla þannig að það trufli engan?
-Ein svona máttlaus aðgerð er alveg nóg fyrir mig, næst kem ég með litboltabyssuna mína.
-Mér líður eins og herstöðvarandstæðingi.

Að lokum safnaðist hópurinn saman við ruslagáminn og gólaði á hann. Það er jafn líklegt til árangurs.

 

Kannast ekkert við málið … ?

Löggan kannast ekkert við það nei?

Uhh? Ég hef allavega fengið að tala við hana með því að hringja í Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og Haukur segist hafa heimsótt hana þangað núna áðan.

Þeir hafa líklega bara boðið henni vinnu með fæði og húsnæði á Skólavörðustígnum og hún eitthvað misskilið það.

Hún var náttúrulega ekki í haldi lögreglu, heldur í haldi fangelsismálastofnunar. Það skal enginn segja mér að þeim á Hverfisgötunni hafi verið ókunnugt um dvöl Tukthússlimsins á Skólavörðustígnum. Í minni sveit heitir þetta útúrsnúningur. Ég velti tilgangnum fyrir mér.

Bein aðgerð

Þetta er dæmi um beina aðgerð.

Hér eru á ferð ungir menn sem bíða ekki eftir því að ríkisvaldið leiðrétti reglu sem þjónar engum tilgangi og býður upp á persónunjósnir, heldur grípa sjálfir til aðgerða sem valda andstæðingum þeirra óþægindum. Mér finnst það gott hjá þeim.

Silfur Egils fer nú að nálgast gull að verðgildi

Óttalegur smásálarháttur finnst mér nú að nota umferðaróhapp unglings til að gera lítið úr málstað og mótmælaaðferðum heillar grasrótarhreyfingar.

Agli Helgasyni (og öðrum sem rakalaust hafa haldið því fram að meðlimir Saving Iceland viti ekki um hvað þeir eru að tala) til upplýsingar, þá voru gaskútarnir í bílnum ekki ætlaðir til hryðjuverkastarfsemi, heldur var þetta unga fólk að flytja útilegudótið sitt í bæinn. Þessar friðelskandi tófúætur nota gaskúta nefnilega til að elda en ekki til hernaðar.

Fyrir hönd unga vinar míns sem hefur nú verið handtekinn nógu oft til að hafa efni á þessari glæsikerru sem lenti á vegg hérna fyrir utan hjá mér í gær, biðst ég afsökunar á því að bíllinn skuli vera úr áli. Ég býst við að Egill Helgason kúki eins og annað fólk og myndi því aldrei voga sér að vera með einhver læti yfir því þótt íslensk stjórnvöld gæfu öðrum þjóðum leyfi til að nota árnar okkar sem losunarstöðvar fyrir mannasaur. Það myndi ég hinsvegar gera og kúka ég þó. Svona er nú hræsnin í þessum umhverfissinnum.

Kveðja frá tukhússlimnum

Tengdadóttir mín tukthússlimurinn fékk engan frest til að ákveða hvað hún vildi gera. Henni var birtur dómurinn og þurfti samstundis að ákveða hvort hún ætlaði að borga sektina eða sitja hana af sér (á launum). Ekki svo að skilja að það hafi nokkurntíma hvarflað að henni að borga hundraðkall í sekt fyrir borgaralega óhlýðni en mér fannst ótrúlegt að það væri bara talið gott og gilt að stilla einhverjum svona upp við vegg, án nokkurs réttar til áfrýjunar eða umþóttunar. Ég er nú búin að líta aðeins yfir lögin og sé ekki betur en að í þessu ríki frelsis og réttlætis sé fullkomlega löglegt að fara svona með pólitíska fanga.

Byltingin fékk leyfi til að heimsækja hana í gær og hún lætur vel af sér. Hún er á Skólavörðustígnum, ein kvenna og fær ekkert samneyti að hafa við hina fangana en hún hefur nóg lesefni og ver miklum tíma til yogaæfinga. Hún biður að heilsa öllum vinum sínum á Íslandi.

Bréf til RÚV

Kæra RÚV

Mig langar í helling af peningum og varð því mjög glöð þegar fréttir bárust af því (samkvæmt áreiðanlegum heimildum) að meðlimir Saving Iceland fengju greitt fyrir að vera handteknir. Þar sem fréttastofa RÚV hefur aðgang að áreiðanlegri heimildamönnum en ég sjálf, og Óli aktivisti, Haukur sonur minn, Siggi pönk og Helga gamla anarkistaamma, harðneita öll að borga mér svo mikið sem krónu með gati, fer ég þess á leit að fréttastofa upplýsi mig um eftirfarandi atriði:

-Hvaða fjársterku aðilar útvega hreyfingunni fé til að borga mér?
-Hversu mikið ég fæ fyrir minn snúð?
-Er virðisaukaskattur innifallinn í þóknuninni eða leggst hann ofan á?
-Er þóknunin kannski ekki gefin upp til skatts?
-Er sami taxti fyrir alla eða hef ég möguleika á að hífa mig upp? (t.d. upp í krana)

Sú spurning sem brennur heitast á mér er þó þessi:
-Hvert ég á að senda reikninginn?

Um leið og ég fer fram á svör við þessum spurningum vil ég koma því að að samkvæmt heimildum sem ég tel áreiðanlegar, fá fréttamenn RÚV aukagreiðslur í formi kókaíns ef þeir ná að plata þjóðina með innistæðulausi bulli. Ég hef ekki í hyggju að færa nein rök fyrir þessari staðreynd en verði ég beðin um það mun ég standa við það sem ég segi.

 

Ekki volgt, blautt og guðdómlegt -ekki enn amk

Ég lofaði volgu blautbloggi ef ég fengi rök en eitthvað hefur gredda lesenda legið í láginni.

Mikið er ég farin að hlakka til að komast í frí. Alexander er í síðara sumarfríinu sínu núna svo ég er alveg bundin yfir búðinni. Ég er orðin mjög þreytt, ekki af því að sé svo brjálað að gera heldur af tilbreytingarleysi. Það er ekki hollt að búa á vinnustaðnum.

En þetta stendur til bóta. Ég flyt um mánaðamótin og fer svo út að hitta Pysjuna mína í ágúst. Eða Lundann minn öllu heldur. Hann er, held ég, skriðinn úr holunni. Þegar ég kem aftur verður Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni fluttur til fyrirheitna landsins og Byltingin að lesa anarkistabókmenntir á dagpeningum í boði ríkisins. Miðað við hans lífsstíl mun hann snúa þaðan auðugur maður og giskið bara á hvaða hreyfingu hann mun gefa dagpeningana sína. Múhahahaha!