Göngum við í kringum

Jæja, þá er Kínamann búinn að dansa fyrir mig „göngum við í kringum einiberjarunn“ eða eitthvað álíka. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því af hverju hann var að útskýra svona nákvæmlega hvernig hann þvær og straujar skyrturnar sínar en ég náði því að hann á 20 hvítar skyrtur og engin þeirra er „kapútt“ af því að hann er svo duglegur að strauja. Halda áfram að lesa

Gæsaveislur og busavígslur

Orðskrípið „gæsun“ hefur valdið mér töluverðu hugarangri í mörg ár.  „Steggjun“ er ekki skárra. Hver er eiginlega hugsunin á bak við orðalagið að „gæsa“ konuna og „steggja“ karlinn? Ekki sú að halda veislu heldur að breyta hjónaleysunum í gæs og stegg? Hvernig beygist annars sögnin að gæsa? Gæsa, gæsaði, gæsað? Eða gæsa, gæsti, gæst? Síðari kosturinn er skömminni skárri.

Sömuleiðis hefur menningarfyrirbærið busavígsla víst breyst í „busun“ og nýnemar eru nú „busaðir“ við upphaf framhaldsskólagöngu sinnar.

Má af þessu ráða að eftir nokkur ár verði hjónavígsla „hjónun“ og nýgæst konan og nýsteggjaður karlinn verði ekki gefin saman heldur „hjónuð“. Prestsefnið verður „prestað“ og prestsvígslan sjálf kallast þar með „prestun“. Útskriftarathöfn stúdenta verður „stúdun“ en þar verða nýútskrifaðir námsmenn stúderaðir.

Sjálf er ég steinhætt að halda jól. Ég „jóla“ í stað þess að halda jólaboð og framkvæmi „jólun“ á híbýlum mínum í stað þess að skreyta húsið. „Afjólun“ fer svo fram 7. janúar ár hvert.

 

 

Tusk

Ég átti leynivin. Við áttum það til að meiða hvort annað smávegis. Slá og klípa. Þrisvar eða fjórum sinnum fórum við í felur og þá enduði átökin í keliríi en oftast lömdum við hvort annað á almannafæri og vonuðum að hinir krakkarnir og kennararnir álitu að við værum að gera upp rifrildi. Ég held ekki að við höfum blekkt neinn. Allavega greip fullorðna fólkið ekki inn í þessi einkennilegu atlot okkar þótt alvöru slagsmál væru stoppuð. Halda áfram að lesa

Tókuð þið nokkuð eftir því sjálf hvað ég var sniðugur?

Þessa dagana fer fátt meira í taugarnar á mér en frasinn „pun intended“ nema ef vera skyldi „no pun intended“. Þetta orkar jafn illa á mig og spaugarinn sem getur ekki verið fyndinn nema með því að nota inngang á borð við; „á ég að segja þér brandara?“

Það er ekkert grín að vera hnyttinn. Ef maður getur ekki treyst áheyrandanum/lesandanum fyrir textanum, þá er það annað hvort vegna þess að hann er svo ómeðvitaður að hann á hvort sem er ekki skilið að fatta djókinn, eða þá að orðaleikurinn var hvort sem er of ómerkilegur til að verðskulda athygli.