Tusk

Ég átti leynivin. Við áttum það til að meiða hvort annað smávegis. Slá og klípa. Þrisvar eða fjórum sinnum fórum við í felur og þá enduði átökin í keliríi en oftast lömdum við hvort annað á almannafæri og vonuðum að hinir krakkarnir og kennararnir álitu að við værum að gera upp rifrildi. Ég held ekki að við höfum blekkt neinn. Allavega greip fullorðna fólkið ekki inn í þessi einkennilegu atlot okkar þótt alvöru slagsmál væru stoppuð.Okkur kom ágætlega saman, fúnkeruðum í hóp en það var engin venjuleg vinátta á milli okkar. Við ræddum þetta aldrei og héldum okkar strjálu og stuttu ástarfundum leyndum. Ég er ekki alveg viss um hvort við skömmuðumst okkar meira fyrir hvort annað (hvorugt okkar þótti kærustulegt) eða fyrir þessa hegðun, sem var á einhvern hátt erótísk en ég allavega hafði aldrei heyrt um.

Ég reyndi að koma öðrum drengjum upp á það sama en þeir misskildu mig. Héldu að ég vildi slást að hætti stráka og leikurinn endaði í alvöru líkamsmeiðingum. Mér gekk mjög illa að útskýra fyrir móður minni hversvegna ég hefði sjálf stofnað til tilefnislausra slagsmála og hversvegna ég liti ekki á glóðarauga á báðum og sprungna vör sem ofbeldisverk.