Göngum við í kringum

Jæja, þá er Kínamann búinn að dansa fyrir mig „göngum við í kringum einiberjarunn“ eða eitthvað álíka. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því af hverju hann var að útskýra svona nákvæmlega hvernig hann þvær og straujar skyrturnar sínar en ég náði því að hann á 20 hvítar skyrtur og engin þeirra er „kapútt“ af því að hann er svo duglegur að strauja.

Eitthvað líka um frábæra kaffivél. Er ekki viss um hvort ég á að koma yfir á veitingastaðinn og þiggja bolla úr stórkostlegri kaffivél, hvort hann ætlar að koma með stórkostlega kaffivél niður í kjallara og bjóða mér í kaffi eða hvort hann ætlar að selja mér stórkostlega kaffivél svo ég geti boðið honum í kaffi. Fékk allavega staðfest að hann væri hrifinn af litlum konum.
-My boyfriend also likes small ladies,
sagði ég og vék mér undan knúsinu og hver haldiði að hafi þá komið eins og kallaður, nema hann litli, fallegi, drykkfelldi Haffi minn, sem ég hef ekki séð í ég held tvö ár eða meira.