Dööö!

Af hverju er það stórfrétt að hlutfallslega færri Pólverjar en Íslendingar hafi fengið á sig kærur en hinsvegar ekki minnst orði á að Litháar og Bretar séu samkvæmt þessari könnun mun meiri glæpahundar en landinn? Hverjir frömdu alvarlegu glæpina og skiptir það í raun einhverju máli? Hvaða kjána dettur í hug að fjöldi ákærðra í svona litlu samfélagi segi eitthvað um glæpahneigð eftir þjóðerni? Halda menn t.d. að Bretar séu líklegri til að fremja morð en Íslendingar eða gæti þetta háa hlutfall glæpabreta kannski staðið í einhverju sambandi við þá staðreynd að langflestir þeirra sem tóku þátt í mótmælaaðgerðum umhverfissinna í sumar (og voru sumir hverjir kærðir fyrir það eitt að dansa á Snorrabrautinni) voru Bretar?

Ég hef enga trú á því að Pólverjar séu löghlýðnari en Bretar en kannski halda þeir sem tóku að sér að setja fram og túlka niðurstöður þessarar einkar óvísindalegu rannsóknar að þeir séu að gera Pólverjum einhvern sérstakan greiða. Sennilega standa líkurnar á því að fólk brjóti af sér bara ekki í neinu sambandi við þjóðerni.

Smámál

Það er fullt sem skiptir svosem ekki nógu miklu máli til að ég sendi erindi út um allan bæ en mér finnst samt voða asnalegt að vita ekki. Til dæmis langar mig að vita hversvegna ferðamenn geta fengið vaskinn endurgreiddan en ekki ég? Halda áfram að lesa

Annáll ársins 2007

Um áramót er ég vön að líta yfir farinn veg og tíunda afrek síðasta árs. Það er frekar fljótlegt að þessu sinni. Helsta afrek mitt árið 2007 er það að hafa tekist að halda úti vefsíðu sem er uppfærð að meðaltali einu sinni á dag, þrátt fyrir að hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut sem er upprifjunar virði.

Jú annars, eitt kannski. Ég framdi svartagaldur á Austurvelli og síðan hafa verið stöðugar jarðhræringar í Upptyppingum.

Áramótakveðja

Nýtt ár er upp runnið og óska ég landsmönnum öllum og öðrum lesendum gríðarlegrar hamingju og skemmtunar á nýju ári. Sérstaklega vona ég að bekkjarsystkini mín úr Þelamerkurskóla sem skipulögðu bekkjarmótið í haust verði fyrir margháttuðu happi á árinu þar sem umrædd samkoma hafði hinn mesta happadrátt í för með sér.

Áramótaheit mín að þessu sinni eru tvö.
1 Ég ætla að hætta að hugsa fyrir syni mína. Að sjálfsögðu ætla ég áfram að hafa skoðanir á öllu sem þeir gera og gera ekki og skipta mér af eftir smekk og þörfum. Ég ætla hinsvegar að hætta að minna þá á að skila bókasafnsbókum, kaupa afmælisgjafir, mæta í matarboð og hengja úr þvottavélinni.
2 Ég ætla að finna leiðir til að vera eins góð við Pegasus minn og hann á skilið. Það verður öllu erfiðara.

 

Klikk

Skrýtið, og þó, kannski er það ekkert svo skrýtið.

Ég býst við að langsveltur maður sem sest að veisluborði sjái næringuna á undan lúxusnum. Hann áttar sig á því að allt er flott og fullkomið en hann treður sig fyrst út til að seðja sárasta hungrið og fer svo að dást að borðbúnaðinum og serviettunum og pæla í því hvernig laxasneiðunum er raðað í blómamynstur. Halda áfram að lesa

Innkaup

Ég er með vott af stórmarkaðafóbíu. Kemst svosem alveg í gegnum Bónus á föstudegi án þess að fríka út en líður alltaf eins og einhver ægileg ógn sé í nánd. Reyndar hef ég komið mér sem mest undan verslunarferðum síðustu tvö árin en þá sjaldan að ég neyðist til að fara í búð breytir það ótrúlega miklu fyrir mig að hafa einhvern með mér. Halda áfram að lesa