Smámál

Það er fullt sem skiptir svosem ekki nógu miklu máli til að ég sendi erindi út um allan bæ en mér finnst samt voða asnalegt að vita ekki. Til dæmis langar mig að vita hversvegna ferðamenn geta fengið vaskinn endurgreiddan en ekki ég? Ef hugmyndin er sú að fólk sem ekki býr hér eigi ekki að þurfa að greiða ríkinu skatt, af hverju er þá ekki hægt að fá endurgreiddan vask af öllu sem keypt er hversu lítið sem það kostar og hvar sem það er keypt? Beinast liggur við að álykta að endurgreiðslan þyki góð aðferð til að fá ferðamenn til að taka upp seðlaveskið en fyrst er hægt að halda uppi heilu fyrirtæki í kringum endurgreiðslurnar, þá hlýtur einhver að græða beint á þessu. Hver og hvernig?

Annað sem vefst fyrir mér varðar skattainnheimtu. Þegar ég fæ álagningarseðil kemur oft fram að ég skuldi einhverjar kronur í tekjuskatt eða útsvar en eigi hinsvegar inni vaxtabætur. Mér þætti rökrétt að skuldin yrði dregin frá inneigninni og að skattgreiðendur fengju rukkun eða endurgreiðslu í samræmi við það. Ég hef hinsvegar fengið endurgreiðsluna alla sérstakan greiðsluseðil fyrir því sem ég skulda (sem hefur stundum verið minna en kostnaðurinn við að senda út rukkun.) Nú er frádráttur ekki flókin reikningsaðgerð svo varla er skýringin sú að þetta sé einfaldara eða ódýrara fyrirkomulag. Einhverjum tilgangi hlýtur þó að þjóna að hafa þetta svona. Hvaða tilgangi?

Já og eitt enn, hvenær fer vörutalning fram í búðum sem eru opnar allan sólarhringinn, alltaf nema á jóladag og páskadag?

One thought on “Smámál

 1. ——————-

  Lífræna búðin mín sem er opin ca 5 klst. á dag, lokaði vegna vörutalningar í gær. Þetta er það eina sem ég hef sem svar við þessum Araspurningum þínum væna.
  Til dæmis erum við fjölskyldan alveg úti að aka í vasksvindlinu, þó farandi reglulega fram og til baka milli F og ÍS. Veit um ýmsa sem notfæra sér þetta óspart og kaupa alla dýra hluti vasklausa.

  Posted by: Kristín | 3.01.2008 | 16:56:41

  —   —   —

  Í verslunum þar sem eru svokölluð kassakerfi er ekkert mál að telja vörur.
  Niðurstaða talningar mínus velta dagsin gerir vörutalningu rétta.

  Posted by: R02 | 3.01.2008 | 17:06:37

  —   —   —

  Málið er að maður greiðir oft skatt af dýrum vörum þegar maður kemur til síns heimalands (maður á að gefa slíkt upp í tolli á leið inn í landið). Það væri óréttlátt ef gripurinn væri tvískattaður. Og hvers vegna ættu útlendingar að greiða fyrir heilbrigðis og skólakerfið okkar?

  Ástæðan fyrir því að þetta er ekki gert fyrir smáhluti er sú að það væri of þungt að gera sér kvittun fyrir smámuni (myndi ekki svara kostnaði).

  Athugaðu að þessi afsláttur er ekki veittur í búðinni heldur er hann endurgreiddur á flugvellinum, gegn framvísun sérstakra kvittana. Ég sparaði t.d. smá aur á þessu þegar ég var síðast á Íslandi.

  Posted by: Þorkell | 4.01.2008 | 0:13:54

  —  —  —

  Það er hægt að fá hann endurgreiddan í miðri Reykjavík, niðri í gamla Geysishúsi. Mig grunar að þetta sé gróflega misnotað og sjaldan sem fólk lendir í því að greiða skattinn hinum megin. Ekki það að mér sé ekki sama, en mér finnst allt í lagi tilhugsun að ríkir útlendingar greiði fyrir heilbrigðiskerfi Íslendinga, ekki tíma ríkir Íslendingar því! Ekki fara að rífast við mig samt, ég er bara með kaldhæðni í morgunsárið.

  Posted by: Kristín | 4.01.2008 | 8:17:20

  —   —  —

  Ég samþykki alveg þau rök að fólk eigi ekki að þurfa að greiða bæði vask og toll eða halda uppi íslenska velferðarkerfinu. Veit líka að búðin tapar engu á þessu (ég gef sjálf út kvittanir svo fólk geti fengið endurgreiðslu). Það sem ég skil ekki er hver græðir þá á þessu. Það hlýtur að vera einhver (annar en útlendinguinn) því annars væri þetta væntanlega ekki í boði.

  Posted by: Eva | 4.01.2008 | 12:14:12

  —   —   —

  Ja, gróðinn felst m.a. í neysluhvatningunni. Miðinn TAXFREE er hvatning fyrir túrista að spandera meira.
  Og svo hlýtur þetta fyrirtæki (sem er alþjóðlegt, held ég, eða hvað, er það íslenskt á Íslandi? hér í Frakklandi minnir mig að höfuðstöðvarnar séu í Þýskalandi?) sem sýslar með þetta að græða slatta á því, þeir taka alltaf bita af hverri köku.

  Posted by: Kristín | 4.01.2008 | 13:12:34

Lokað er á athugasemdir.